Áhrifarík markaðssetning
Dagana 11.-13 apríl verður haldið námskeið í Kjarna, Hafnargötu 57, sem ber heitið Áhrifarík markaðssetning. Námskeiðið er þrjár klukkustundir í senn, frá klukkan 18 til 21 og leiðbeinandi verður Magnea Guðmundsdóttir kynningarstjóri Bláa Lónsins hf. Hún er með B.A. í markaðsfræðum og almannatengslum og mastersgráðu í almannatengslum og auglýsingafræðum.Að sögn Magneu er námskeiðið ætlað þeim sem hafa almennan áhuga á markaðsfræðum og hentar sérstaklega vel aðilum sem starfa við rekstur. „Námskeiðið kemur til með að veita góða yfirsýn yfir markaðsfræði og er því góður kostur fyrir þá sem hyggja á framhaldsnám og vilja kynnast greininni betur áður en endanleg ákvörðun er tekin“, segir Magnea.Á námskeiðinu verður fjallað um innra og ytra umhverfi fyrirtækja og hvernig aukin þekkingá markaðsumhverfinu styrkir samkeppnisstöðu. Einnig verður rætt um tilgang og mikilvægi markaðsáætlana og helstu þætti þeirra allt frá markmiðasetningu til fjárhagsáætlana. Þátttakendur munu einnig vinna verkefni er tengjast gerð markaðsáætlana. „Ég mun einnig taka fyrir mikilvægi vel skilgreindra markhópa og gefa dæmi um hvernig innlend og erlend fyrirtæki hafa styrkt markaðsstöð sína með því að höfða á markvissan hátt til ákveðinna markhópa“, segir Magnea og bætir við að áhersla verði lögð á samhæfð markaðssamskipti, beina markaðssetningu og markpóst, auglýsingar og almannatengsl. Birtingaráætlanir eru einn þáttur námskeiðsins og þá verður fjallað um mikilvægi þess að samhæfa auglýsingabirtingar og aðra markaðstengda viðburði. „Ég mun einnig benda á nokkur atriði sem geta haft áhrif á ákvarðanir er varða markaðssetningu í alþjóðlegu umhverfi“, segir Magnea og hvetur áhugasama til að hafa samband við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, sem veitir upplýsingar og tekur við skráningum á námskeiðið.