Ágústmánuður góður hjá Icelandair Group
Mánuðurinn sem leið var Icelandair Group einstaklega gjöfull, en fjöldi farþega í millilandaflugi félagsins hefur aldrei verið meiri í ágústmánuði. Farþegum hefur nú fjölgað um 14% á milli ára það sem af er ári hjá félaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í nótt.
Vélar Icelandair Group fluttu 271 þúsund manns milli landa í ágúst, það er 9% fleiri en í ágúst í fyrra. Sætanýting nam 84,9 prósentum. Farþegafjölgunin var mest á Norður-Atlantshafsmarkaðinum. Þetta er jafnframt mesti fjöldi farþega sem félagið hefur flutt á ágústmánuði frá upphafi.
Þá fjölgaði farþegum í Grænlands-og innanlandsflugi um 3 prósent frá því í ágúst í fyrra. Voru þeir alls 36.920 í mánuðinum sem leið.