Aðstoð og stuðningur við að gera viðskiptahugmynd að veruleika
Í vikunni eftir Ljósanótt opnar Frumkvöðlasetrið að Ásbrú í nýju og mikið endurbættu húsnæði í Eldey við Grænásbraut að Ásbrú í Reykjanesbæ. Þóranna K. Jónsdóttir er verkefnastjóri hjá Frumkvöðlasetrinu. Víkurfréttir tóku hús á Þórönnu þar sem hún var í óða önn að skipuleggja vetrarstarfið og það að taka á móti kraftmiklum frumkvöðlum með áhugaverðar hugmyndir til frekari úrvinnslu.
- Hvert er þitt starf?
„Mitt starf er að vera verkefnastjóri frumkvöðlasetursins hér að Ásbrú. Það er annars vegar í Eldvörpum, þar sem rekið er fyrirtækjahótel, og hins vegar í Eldey. Við erum að taka við Eldey af Nýsköpunarmiðstöð og Keili, sem voru með reksturinn. Keilir var þar með frumkvöðlanám sem nú hefur verið fellt inn í annað nám og er að breytast og Nýsköpunarmiðstöð fer út úr starfseminni með þeim hætti að þeir verða ekki beinir rekstraraðilar en hins vegar verðum við áfram í nánu samstarfi við Nýsköpunarmiðstöðina.“ segir Þóranna í samtali við blaðamann.
- Hvað eruð þið að fara gera?
„Nú standa yfir miklar breytingar á húsnæði Eldeyjar og frekari endurbætur fyrirhugaðar. Á efri hæðinni var hálfgerð kanínuhola og fjölmörg gluggalaus rými sem voru nýtt fyrir frumkvöðla. Á neðri hæðinni var svo Keilir með kennslu- og skrifstofurými, auk þess sem þar eru smiðjur fyrir frumkvöðlafyrirtæki. Á efri hæðinni hafa veggir verið rifnir í burtu og rýmið opnað. Þarna verður opið rými þar sem verður hægt að leigja skrifborðspláss eins og gengur og gerist í frumkvöðlasetrum. Reynslan hefur verið sú að opin rými hafa reynst best þar sem frumkvöðlar eiga í hlut. Tengsl og samvinna myndast oft í opnum rýmum“ segir Þóranna og bætir við: „Mörgum frumkvöðlum nægir að fá ráðgjöf og stuðning og sækja námskeið og slíkt. Það er hins vegar mjög gott að vera innan um annað fólk, frekar en að vera einn heima að vinna í hugmyndinni sinni. Þeir sem vinna heima sakna oft félagsskaparins. Það sýnir sig best þegar fólk fer á kaffihús með fartölvuna til að vinna og komast þannig í félagsskap fólks. Frumkvöðlasetrið í Eldey verður kannski ekki kaffihús en er ætlað að veita frumkvöðlum nauðsynlegan stuðning og tengsl við annað fólk á sama tíma og það er staður þar sem hægt er að sækja ráð og aðstoð. Einnig er reynslan sú að frumkvöðlar fara að styðja við og vinna með og fyrir hvorn annan“.
Þóranna mun veita frumkvöðlum handleiðslu í starfi sínu. „Hvar standa hugmyndir fólks og hvað er það að spá? Hver eru næstu skref?,“ spyr Þóranna. Þetta mun hún skoða með fólki og þegar það þarf ráðgjöf á vissum sviðum mun hún vísa á rétta aðila til að leysa málin. Frumkvöðlasetrið er einnig í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum varðandi námskeið sem verða haldin í Eldey undir stjórn MSS. Þá verður frumkvöðlasetrið með fræðsludagskrá, m.a. í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Stefnt er að því að hafa fræðslu vikulega. Aðra hverja viku verður fræðsluerindi og aðra hverja viku er einnig markmiðið að fá frumkvöðul í heimsókn sem getur miðlað af reynslu sinni.
- Hvaða frumkvöðlum verður stefnt á svæðið?
„Hvað varðar Suðurnes í heild, þá er þetta opið almennt fyrir þá sem eru með viðskiptahugmynd og vilja fara í frumkvöðlastarf. Hér geta allir komið inn og nýtt sér handleiðsluna og námskeiðin. Þegar kemur að því að leigja húsnæði verðum við að setja okkur ákveðnar skorður. Þetta má ekki vera neitt sem er í beinni samkeppni.
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar er hins vegar með fókus á ákveðnum klösum, þ.e. græna orku, heilsu og samgöngur og þá fyrst og fremst flugið. Við viljum laða að frumkvöðla á því sviði.
Við komum til með að vinna mjög náið með Keili og þá eru ýmsar hugmyndir á lofti á alþjóðlega vísu, m.a. í að laða hingað fyrirtæki á þessum sviðum og frumkvöðlasetrið mun styðja algjörlega við þær hugmyndir sem Kadeco er að vinna á þessum sviðum. Við horfum til þess að fá inn öfluga aðila á svæðið. Hér viljum við byggja upp svæðið þannig að hér verði mikil gróska og öflugt atvinnulíf. Við viljum hrista Suðurnesin úr þeim doða sem hefur legið yfir okkur,“ segir Þóranna.
„Við erum svolítið mikið að bíða eftir að álverið komi, bíða eftir að gagnaverið komi og bíða eftir að atvinnan komi. Það eru hins vegar margir aðilar á Suðurnesjum sem þessi fyrirtæki munu ekki leysa málin hjá eða skapa atvinnu fyrir. Þess vegna þurfum við að passa að hafa nógu mikla fjölbreytni. Það er okkar hlutverk að styðja við þær hugmyndir sem eru í gangi og gera allt sem við getum til þess að þær gangi upp. Rannsóknir sína að af nýjum fyrirtækjum þá eru það 10-20% sem ganga upp og eru í góðum rekstri eftir 5 ár. Reynslan sýnir að 80% þeirra fyrirtækja sem fara í gegnum ferli eins og boðið verður upp á í frumkvöðlasetrinu eru enn til að fimm árum liðnum.
Við aðstoðum t.d. við gerð viðskiptaáætlana og markaðsáætlana en gerum þær ekki fyrir fólk. Þau fyrirtæki sem vilja styrkja og styðja starfsemina í frumkvöðlasetrinu t.d. með því að lána starfsfólk 1-2 klukkutíma í viku í t.a.m. ráðgjöf eða annað, við viljum endilega fá þau“.
- Hvenær á að byrja?
„Í vikunni eftir Ljósanótt förum við af stað með starfsemi í Eldey. Þann 7. september mun Kjartan Már Kjartansson halda hjá okkur námskeið sem heitir „Stígum skrefið“ og er fyrir þá sem lengi hefur langað að hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd en hafa ekki enn stigið skrefið. Þetta er námskeið sem fer yfir markmiðasetningu, hvað þarf að gera til að koma sér af stað. Hægt er að skrá sig á námskeiðið hjá MSS. Þá er þessa dagana verið að vinna frekar í dagskránni fyrir næstu vikur og mánuði“.
- Hvert er fyrsta skrefið?
„Hafa samband við mig. Sendið mér línu á [email protected] eða hringið í mig í 843 6020. Við byrjum á því að hittast og spjalla og metum út frá því hvað hentar og hver séu næstu skrefin“.
- Hvað getið þið tekið á móti mörgum aðilum?
„Við getum tekið á móti fullt af fólki. Húsnæðið er 3300 fermetrar. Á neðri hæðinni er fjöldi lokaðra skrifstofurýma. Uppi er opið svæði með skrifborðum en þar verður einnig torg þar sem fólk getur sest niður og spjallað. Þeir sem þurfa næði til að hringja símtöl geta brugðið sér inn í símaklefa en við höfum þegar útvegað tvo gamla símaklefa sem settir verða upp á efri hæðinni. Ég sé fyrir mér að það rúmast skrifborð fyrir 40-50 manns á efri hæðinni án þess að það þrengi að nokkrum manni. Það er engin hætta á því að við fyllum þetta í bráð, þó svo við vildum fylla þetta sem fyrst“.
- Hvað gerið þið ráð fyrir að fólk staldri lengi við hjá ykkur?
„Það fer allt eftir því í hvaða verkefnum fólk er. Sum fyrirtæki eru í vöruþróun í mörg ár. Önnur fyrirtæki staldra við í hálft ár eða ár. Við viljum fá inn hjá okkur fólk sem ætlar að framkvæma hlutina og fólk með skýr markmið. Það sem er svo mikilvægt er að byggja upp andann og samfélagið í húsinu og þá er svo mikilvægt að vera með fólk sem er kraftmikið. Þá verðum við með sterkt tengslanet og í góðu sambandi við sveitarfélögin á Suðurnesjum og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum“.
Þóranna segir að það séu allir smeykir þegar þeir byrja. „Bara það að taka skrefið að koma til okkar og spjalla. Það er um að gera að drífa í því og stíga skrefið. Maður veit ekkert fyrr en maður reynir hlutina,“ segir verkefnastjórinn Þóranna K. Jónsdóttir að endingu.
Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu frumkvöðlasetursins, incubator.asbru.is
---
VFmynd/elg - Þóranna K. Jónsdóttir er verkefnastjóri hjá Frumkvöðlasetrinu.