66,7 milljarða króna merki?
Nú hafa Símaskráin, simaskra.is, 118 / 1818 og 1811 öðlast nýtt líf undir merkjum Já. Með því að reka þessa þjónustuþætti sjálfstætt verður unnt að skerpa fókusinn auk þess að halda áfram að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu. Í framtíðinni er svo stefnt á útvíkkun þjónustuþátta þeirra er Já býður uppá og kynningu á nýrri þjónustu. Já er svarið, segir á vefsíðu fyrirtækisins, sem áður var Síminn en nú er rekið sem sérstök rekstrareining undir merkinu „já“.
Að sjálfsögðu var búið til nýtt vörumerki fyrir þjónustuna, einfalt og gott. Blaðamanni Víkurfrétta brá því nokkuð þegar vörumerki hjá svipaðri þjónustu í Svíþjóð „poppaði upp“ í auglýsingu á vefsíðu. www.hitta.se er einhverskonar símaskrá eða leitarvél og lögun vörumerkis þeirra er sú sama og hjá hinu íslenska „já“. Eina sem við þurftum að gera þegar við bárum merkin saman var að snúa því sænska 180 gráður og meira segja stærðin var sú sama upp á millimetra.
Framkvæmdastjóri „já“ er Suðurnesjakonan Sigríður Margrét Oddsdóttir. Hún starfar hjá fyrirtæki sem í gær var staðgreitt fyrir 66.7 milljarða króna en á sama tíma virðist fyrirtækið hafa keypt „ódýra“ hönnun á merki. Er ekki hvort sem er alltaf verið að finna upp hjólið aftur og aftur… og aftur?