60% aukning í netverslun Nettó eftir að kórónaveiran kom upp
Um 60% aukning var í sölu netverslun Nettó á milli mánaða sem forsvarsmenn fyrirtækisins telji að megi rekja til komu kórónaveirunar til Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nettó.
„Það er ljóst að fólk vill hafa varan á nú þegar kórónaveiran hefur numið hér land. Netverslunin okkar hefur vaxið jafnt og þétt og tífaldast frá því að hún fór í loftið í september 2017 en við höfum ekki séð svona stórt stökk í sölu frá fyrstu mánuðum netverslunarinnar,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Nettó, í tilkynningunni.
„Við höfum þurft að fjölga starfsfólki í afgreiðslu netverslunarinnar og erum að skoða leiðir til að fjölga bílstjórum í samstarfi við aha, sem sér um að koma vörunum heim að dyrum.“
Samkvæmt leiðbeiningum frá Landlækni mega einstaklingar í sóttkví ekki fara sjálfir eftir aðföngum, þ.á.m. í apótek, matvöruverslun, pósthús, banka eða annað. „Ef heimili er allt í sóttkví er hugsanlegt að vinir eða ættingjar geti sinnt aðföngum og skilið eftir við útidyr. Ef heimsending matvælra og ananrra nauðsynja er í boði á svæðinu er hægt að nýta þá þjónustu á meðan sóttkví stendur,“ segir meðal annars í leiðbeiningum frá Landlækni.
Samkaup reka um 60 verslanir um land allt þar á meðal Nettó, Kjörbúðina, Krambúðina, Iceland og Samkaup Strax. Í öllum verslunum er lagt mikið upp úr hreinlæti en vegna kórónaveirunnar er enn meiri áhersla lögð á hreinlæti en áður.
„Við fylgjum leiðbeiningum Landlæknis fyrir fólk í framlínustörfum um hvernig skuli verjast smiti og hvernig skuli bera sig að við þrif á svæðum sem kunna að vera sóttmenguð. Starfsfólk hefur fengið þau fyrirmæli að gæta enn frekar að hreinlæti en venjulega. „Starfsfólk reynir af fremsta megni að sótthreinsa innkaupakerrur, kassa og önnur svæði. Þá höfum við komið upp sprittaðstöðu fyrir viðskiptavini og ráðleggjum þeim bæði að spritta hendur við komuna í verslanir og þegar þeir yfirgefa þær,“ segir Gunnar Egill. „Við bjóðum einnig viðskiptavinum okkar að ná í vörur sem þeir hafa pantað á netinu í verslanir okkar, þar eru fyrrnefndar sprittaðstöður.“