Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

58,3% meira sætaframboð í vetraráætlun Keflavíkurflugvallar
Mánudagur 5. september 2016 kl. 14:20

58,3% meira sætaframboð í vetraráætlun Keflavíkurflugvallar

Aldrei hafa jafnmörg flugfélög flogið á jafnmarga áfangastaði í vetraráætlun á Keflavíkurflugvelli og verður á komandi vetri. Flugfélög í vetraráætlun verða 14 talsins, þau fljúga til 57 áfangastaða og sætaframboð eykst um 58,3%. Veturinn 2015/2016 voru tæpar tvær milljónir sæta í boði en komandi vetur verður framboðið yfir þrjár milljónir. Þegar þetta er skoðað í samanburði við síðustu ár kemur í ljós að sætaframboð fyrir komandi vetur er meira heldur en öll sumaráætlunin árið 2013 og meira en framboðið var allt árið 2011. Frestur flugfélaga til að staðfesta afgreiðslutíma sína í vetraráætlun, lok október til loka mars, á Keflavíkurflugvelli rann út í byrjun september og á því byggja þessar tölur.

HVATAKERFI OG ÖFLUG MARKAÐSSETNING STUÐLA AÐ AUKINNI VETRARFERÐAMENNSKU

Vetrarferðamennska hefur aukist jafnt og þétt og árstíðarsveiflan hefur minnkað. Þetta skiptir sköpum fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi og styrkir það rekstrargrundvöll allra fyrirtækja í ferðaþjónustu að auka vetrarferðamennskuna. Þetta á einnig við um innviðina á Keflavíkurflugvelli, en með betri dreifingu ferðamanna yfir árið og innan sólarhringsins er unnt að nýta innviðina á Keflavíkurflugvelli mun betur. Ferðaþjónustan á Íslandi hefur haft það markmið að auka vetrarferðamennskuna og hefur markaðssetning miðað að því. Isavia hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar með öflugri markaðssetningu gagnvart flugfélögum og hvatakerfi sem veitir flugfélögum sem hefja flug allt árið mikinn afslátt af notendagjöldum. Þessar aðgerðir hafa fjölgað þeim flugfélögum sem fljúga til Íslands allt árið, fjölgað áfangastöðunum sem standa til boða í beinu flugi og umfram allt aukið samkeppni og lækkað þannig verð á farmiðum til og frá Íslandi.

FJÓRTÁN FLUGFÉLÖG TIL SAMTALS 57 ÁFANGASTAÐA

Farþegum mun í vetur standa til boða beint flug til 57 áfangastaða og munu fjórtán flugfélög sinna fluginu. Flugfélög í vetraráætlun eru eftirfarandi:

Air Berlin, Air Iceland, Atlantic Airways, British Airways, Delta, easyJet, Icelandair, Norwegian, Primera, SAS, Thomson, Vueling, Wizz Air, WOW air

SÆTAFRAMBOÐ OG FARÞEGASPÁ

Taflan hér að neðan sýnir sætaframboð í hverjum mánuði áætlunar síðasta vetrar og komandi vetrar. Þar er einnig raunfjöldi farþega síðasta vetur og farþegaspá Isavia fyrir komandi vetur út frá meðalsætanýtingu síðustu fimm ára. Meðal þess sem sjá má er að háveturinn sækir mest í sig veðrið en í janúarmánuði, sem ávallt hefur verið minnsti mánuður ársins, er gert ráð fyrir 63% fjölgun farþega og verður janúar því litlu minni ferðamánuður en nóvember og febrúar, ef spáin gengur eftir.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024