Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

54 þúsund fermetrar í 10-12 milljarða króna framkvæmd
Miðvikudagur 30. ágúst 2006 kl. 08:49

54 þúsund fermetrar í 10-12 milljarða króna framkvæmd

Nýlega var undirritaður samningur við Húsanes hf. um byggingu fyrsta áfanga raðhúsa á Nesvöllum, sem verður miðstöð þjónustu við aldraða í Reykjanesbæ.  Þegar hefur verið gerður samningur við Nesprýði ehf um gatnagerð og jarðvinnu og eru þær framkvæmdir nú í fullum gangi. Samningurinn við Húsanes markar upphaf framkvæmdanna við Nesvelli þar sem fyrirhuguð er bygging 54 þúsund fermetra húsnæðis sem kosta mun á bilinu 10 - 12 milljarða.

 

Fyrstu raðhúsin afhent 2007
Húsanes byggir í fyrsta áfanga 19 raðhús og er gert ráð fyrir að afhending fari fram í júlí á næsta ári. Raðhúsin verða tveggja herbergja íbúðir, 95 m2 að stærð án bílageymslu og 120 m2 með bílageymslu. Fljótlega hefjast einnig framkvæmdir við byggingu öryggisíbúða, íbúða í fjölbýlishúsum og þjónustmiðstöð. Allar íbúðir verða leigðar út fullfrágengnar að utan sem innan. Reiknað er með að afhenda raðhús í fyrsta áfanga sumarið 2007, en öryggisíbúðir í byrjun vetrar 2007.

 

Á Nesvöllum eru nokkrir íbúðakostir, auk þess sem á svæðinu verður sérhannað útivistarsvæði með félags- og þjónustumiðstöð í miðdepli svæðisins. Íbúðakostir miða að því að mæta þörfum einstaklinga, eftir því sem heilsa og lífstíll þróast. Allar íbúðir verða í góðum tengslum við félags- og þjónustumiðstöð og útivistarsvæði, þar sem lögð verður áhersla á heilsurækt, tómstundir og félagslíf.

 

Öll þjónusta við aldraða á einum stað
Rekstrarfélag Nesvalla mun starfrækja svæðið sem eitt svæði til þess að þjónusta íbúa á Nesvöllum og aðra eldri borgara. Reykjanesbær hefur ákveðið að starfrækja dagdvöl eldri borgara og skipuleggja tómstunda- og félagsstarf eldri borgara í þjónustumiðstöðinni og á útivistarsvæðinu. Félagsþjónusta eldri borgara mun jafnframt hafa aðsetur í þjónustumiðstöðinni, auk þess að leggja til skipulagða daglega tómstundadagskrá. 

 

Hjúkrunarheimilið verður á þremur hæðum, alls 90 herbergi eða 7,500 m2 í það heila. Þjónustumiðstöðin telur alls 3000 m2 en ráðgert er að öryggisíbúðir verði 83 á fjórum hæðum, alls 11.000 m2. Reiknað er með að íbúðir í fjölbýli verði 222 talsins eða alls 27,700 m2 og íbúðir í raðhúsum verði 48 eða 5000 m2. Alls er því um að ræða 54,200 m2 í það heila sem þessi framkvæmd nær yfir. Áætlað er að byggingarframkvæmdum verði endanlega lokið árið 2011.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024