39 framúrskarandi fyrirtæki á Suðurnesjum
Þrjú fyrirtæki koma ný inn á lista Creditinfo. Verkfræðistofa Suðurnesja eina fyrirtækið sem hefur verið á listanum frá upphafi.
Alls eru 39 fyrirtæki, eða 4,5% af heildarfjöldanum, á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki í ár staðsett á Suðurnesjum. Fimm efstu sæti listans á Suðurnesjum eru öll í flokki stórra fyrirtækja en þau skipa Þorbjörn í Grindavík, HS Veitur í Reykjanesbæ, Vísir í Grindavík, Einhamar Seafood í Grindavík og Royal Iceland í Reykjanesbæ.
Aðeins eitt fyrirtæki á Suðurnesjum hefur verið á listanum á hverju ári síðan hann kom fyrst út árið 2010 en það er Verkfræðistofa Suðurnesja. Þrjú fyrirtæki á Suðurnesjum koma ný inn á listann í ár en það eru þau Vísir, Íslandshús og J. Benediktsson.
Nánar um Framúrskarandi fyrirtæki:
Þetta er í þrettánda sinn sem Creditinfo veitir framúrskarandi fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi vottun fyrir góðan og traustan rekstur en listinn í ár var gerður opinber á viðburði í Hörpu í gær. Alls hafa 1.881 fyrirtæki einhvern tímann komist á listann en aðeins 54 þeirra hafa hlotið nafnbótina öll árin. Þegar Creditinfo metur hvort fyrirtæki teljist framúrskarandi er m.a. horft til þess hvort ársreikningi hafi verið skilað á réttum tíma, og þegar litið sé til síðustu þriggja ára sé rekstrarhagnaður, ársniðurstaðan jákvæð, rekstrartekjur að lágmarki 50 millj. kr. og eiginfjárhlutfall a.m.k. 20%. Um 39 þúsund fyrirtæki skila ársreikningi en þegar litið er til allra annarra skilyrða sem fyrirtæki þurfa að uppfylla, þá teljast aðeins um 2% fyrirtækja framúrskarandi.
Hér er listi yfir 39 fyrirtækin á Suðurnesjum sem eru framúrskarandi 2022.