Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Miðvikudagur 16. maí 2001 kl. 10:01

32 milljóna kr. hagnaður Samkaupa

Samkaup hf. var rekið með 32 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Guðjón Stefánsson, framkvæmdastjóri, segir þessa afkomu lakari en árið áður, en hann sé eigi að síður þokkalega ánægður með afkomuna miðað við aðstæður. En hún endurspeglist af hækkandi tilkostnaði og samdrætti í sölu seinni hluta ársins vegna aukinnar samkeppni á matvörumarkaðnum. Á síðasta ári opnuðu tvær nýjar matvöruverslanir á Suðurnesjum, einnig hafi bæst inn ný verslun í Hafnarfirði og á Ísafirði bættist Bónus inn á markaðinn seinni hluta árs 1999.
Heildarsala verslana og kjötvinnslu Samkaupa hf. nam 3,8 milljörðum króna.
Á síðasta ári fóru fram viðræður milli Kaupfélags Suðurnesja sem á 85% hlutafjár í Samkaupum hf. og KEA um hugsanlega sameiningu Samkaupa hf. og Matbæjar ehf. dótturfélags KEA. Þessar viðræður leiddu til þeirrar niðurstöðu að ákveðið var að sameina félögin þannig að Kaupfélag Eyfirðinga keypti 250 milljónir króna hlutafé í Samkaup hf. sem það greiddi með hlut sínum í Matbæ. Stefnt er að formlegum samruna félaganna í árslok 2001.
Meðal annarra tíðinda í rekstri Samkaupa á árinu var að byggt var nýtt verslunarhús í Sandgerði en það var tekið í notkun í mars 2001. Þá var dótturfélagið Staðarborg ehf. sem rak tvær matvöruverslanir á Suðurnesjum, sameinað Samkaupum hf.
Guðjón segir að meðal stærri verkefna í burðarliðnum sé undirbúningur að byggingu verslunarmiðstöðvar á Samkaupssvæðinu í Njarðvík. Einnig hefur verið ákveðin þátttaka í byggingu verslunarmiðstöðvar í miðbæ Ísafjarðar en þar hefur Samkaup rekið verslun með góðum árangri sl. fimm ár.
Aðspurður um framtíðarhorfurnar í rekstri félagsins segir Guðjón að útlitið sé nú betra en það var sl. haust.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024