Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Þriðjudagur 16. október 2001 kl. 08:42

30% samdráttur í útflutningi á ferskum ýsuflökum hjá Trosi ehf.

Verulega hefur dregið úr útflutningi á ferskum ýsuflökum til Bandaríkjanna eftir að kvóti var settur á aukategundir hjá krókabátum 1. september sl. Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri hjá Trosi ehf. í Sandgerði, segir í samtali við fréttavef InterSeafood.com. að hjá þeim sé samdrátturinn 30% í nýliðnum septembermánuði ef miðað er við sama mánuð í fyrra.Tros ehf., sem er sjálfstætt fiskvinnslu- og útflutningsfyrirtæki innan SÍF, hefur á undanförnum árum verið einn helsti útflytjandi á ferskum fiskflökum með flugi til Bandaríkjanna. Ingvar segir að vissulega eigi hryðjuverkaárásin á Bandaríkin þann 11. september sl. sinn þátt í því að útflutningur dróst saman í septembermánuði en hún skýri þó alls ekki allan samdráttinn.
-- Við höfum verið með aukningu í öllum mánuðum ársins miðað við sömu mánuði í fyrra þar til í nýliðnum septembermánuði og ég held að það sé ekkert hægt að horfa framhjá því að breytingarnar á smábátakerfinu vega þar þyngst, segir Ingvar en hann segir skýringarnar fleiri.
-- Það er ekki bara minnkandi ýsuafli þessa bátaflokks eftir að krókaaflamarkið var tekið upp 1. september sl., sem veldur þessu, heldur er skýringanna einnig að leita í því að krókaaflamarksbátarnir fengu engan keilu- og löngukvóta í sinn hlut í byrjun fiskveiðiársins. Þetta hefur mikil áhrif á smábátaflotann þar sem hann kemst ekki á sjó. Það er keila og langa á miðunum og menn komast ekki hjá því að veiða þessar tegundir. Það fæst enginn keilu- og löngukvóti leigður og því hafa bátarnir ekki getað róið, segir Ingvar.
Ingvar hefur áhyggjur af þessari þróun því hann segir Bandaríkjamarkaðinn mjög þýðingarmikinn fyrir fjölmörg fyrirtæki. Vöntun sé á ferskum flökum og hátt verð sé greitt fyrir þessa vöru í Bandaríkjunum.

Sjá nánar á InterSeafood.com.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024