214 milljóna króna hagnaður ÍAV á fyrri helmingi ársins
Hagnaður af rekstri ÍAV hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 2004 eftir skatta nam 214 milljónum króna samanborið við 80 milljóna króna hagnað eftir skatta fyrstu 6 mánuði ársins í fyrra.
Í tilkynningu frá félaginu segir að rekstrartekjur samstæðu Íslenskra aðalverktaka hf. námu 4.196 milljónum króna á fyrri helmingi ársins 2004, samanborið við 3.837 milljónir króna á sama tímabili árið 2003. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) var 530 milljónir króna, samanborið við 273 milljónir króna á sama tímabili árið áður.
Afskriftir tímabilsins eru 128 milljónir króna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta nam 402 milljónum króna á tímabilinu, til samanburðar við 87 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2003. Hagnaður félagsins fyrir skatta, að teknu tilliti til fjármagnsliða nam 270 milljónum króna samanborið við 82 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2003. Að teknu tilliti til reiknaðra skatta nam hagnaður félagsins á fyrri helmingi árs 2004 214 milljónum króna samanborið við 80 milljónir króna á fyrri helmingi árs 2003.
Fjármagnsliðir voru nettó neikvæðir um 132 milljónir króna á fyrri helmingi árs 2004, samanborið við að vera jákvæðir um 5 milljónir króna á sama tímabili árið 2003.
Efnahagur
Heildareignir Íslenskra aðalverktaka hf. og dótturfélaga námu 13.685 milljónum króna í lok júní 2004 en voru 13.039 milljónir króna í árslok 2003. Heildarskuldir samstæðunnar voru 6.460 milljónir króna í lok júní, en voru 6.028 milljónir króna í árslok 2003. Bókfært eigið fé þann 30. júní 2004 var 7.224 milljónir króna en í upphafi árs 7.010 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall í lok júní 2004 var 53% en það var 54% í upphafi árs.
Sjóðstreymi
Veltufé samstæðu Íslenskra aðalverktaka hf. frá rekstri á fyrri helmingi árs 2004 var 384 milljónir króna, samanborið við 254 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2003. Handbært fé í lok júní 2004 var 1.026 milljónir króna samanborið við 771 milljónir króna í upphafi árs. Veltufjárhlutfall var 4,8 í lok júní samanborið við 5,3 í upphafi árs 2004.
Starfsemi ÍAV á fyrri helmingi árs 2004
Á fyrri hluta ársins 2004 gekk ágætlega að afla félaginu nýrra verkefna, auk þess sem áfram var unnið að verkefnum frá fyrra ári.
Helstu verkefni sem félagið vann að á fyrri hluta árs 2004 voru bygging Rannsókna- og nýsköpunarhúss við Háskólann á Akureyri, bygging hótels í Aðalstræti, bygging íþróttahúss og sundlaugar í Garðabæ, bygging íbúðarhúsnæðis í Reykjavík og Mosfellsbæ. Þá vinnur félagið að gerð Arnarness- og Fífuhvammsvegar í Kópavogi, snjóflóðavarnargarða á Seyðisfirði auk margra annarra verkefna. Loks skal geta þess að ÍAV er með talsverða starfsemi á austurlandi í tengslum við þá uppbyggingu sem þar fer fram, svo sem byggingu leikskóla á Egilsstöðum og verslunarmiðstöðvar á Reyðarfirði.
Hjá Íslenskum aðalverktökum hf. og dótturfélögum þess störfuðu að meðaltali 446 starfsmenn á fyrri hluta ársins 2004.
Framtíðarhorfur
Mikil gróska hefur verið í þróunarstarfsemi ÍAV sem er að skila félaginu áhugaverðum verkefnum og auk þess er ljóst að á allra næstu árum verða veruleg umsvif í verklegum framkvæmdum bæði á sviði stóriðju og virkjana en einnig í vegagerð og samgöngubótum.
ÍAV er alhliða verktakafyrirtæki sem hefur starfsemi um allt land og lítur á allt Ísland sem heimamarkað og hefur getu og reynslu til hverskyns verklegra framkvæmda. Einnig fylgist félagið ávallt með verkefnum í Færeyjum og á Grænlandi og er tilbúið að endurvekja starfsemi þar ef áhugaverð tækifæri bjóðast. Þar sem ÍAV haslar sér völl er það stefna að vinna sem best með heimamönnum á hverjum stað.
Stjórnendur ÍAV sjá veruleg og áhugaverð tækifæri á næstu árum til áframhaldandi sóknar og aukinna umsvifa í starfsemi félagsins.
Árshlutareikning ÍAV má nálgast á skrifstofu félagsins að Höfðabakka 9 í Reykjavík, á skrifstofu félagsins á Keflavíkurflugvelli og á vefslóðinni: www.iav.is