Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

2,7% aukning á umferð um Leifsstöð
Mánudagur 27. janúar 2003 kl. 15:50

2,7% aukning á umferð um Leifsstöð

Í samræmi við áætlanir Flugleiða varð veruleg breyting á samsetningu farþega í vélum félagsins á árinu 2002 í samanburði við árið á undan. Farþegum til og frá Íslandi fjölgaði um 2,7% þótt framboð félagsins hafi verið 15% minna en 2001.Farþegafækkunin sem fylgdi minna framboði kom öll fram meðal þeirra farþega sem eru á leið yfir Norður-Atlantshaf með stuttri viðkomu á Keflavíkurflugvelli, en þeim fækkaði um 27,6%. Í heild fækkaði farþegum í millilandaflugi Flugleiða á árinu 2002 úr tæplega 1.360 þúsund á árinu 2001 í tæplega 1.200 þúsund eða um 11,7%. Vegna minna framboðs varð sætanýting hinsvegar 0,7 prósentustigum betri en 2001, en hún var 72,1% að meðaltali á árinu.

Vegna breyttra aðstæðna í alþjóðaflugi sem meðal annars má rekja til atburðanna 11. september var eitt af meginmarkmiðum í rekstri félagsins á árinu að draga úr hlutfalli farþega í vélum félagsins sem eru á leið yfir hafið en auka hlutfall þeirra sem ferðast til og frá Íslandi. Á árinu í heild voru farþegar á leiðum til og frá landinu, þ.e. Íslendingar á leið til útlanda og erlendir ferðamenn á leið til Íslands, 61% af heildarfarþegafjöldanum, en á árinu 2001 var þetta hlutfall 52%.

Á árinu 2002 var flogið í reglulegu áætlunarflugi til 16 borga í Evrópu og Bandaríkjunum, þ.e. til Kaupmannahafnar, Oslóar, Stokkhólms, Amsterdam, Frankfurt, Parísar, London, Glasgow, Berlínar, Mílanó og Barcelona í Evrópu og til Boston, New York, Baltimore, Orlando og Minneapolis í Bandaríkjunum. Á árinu hófu vélar félagsins sig á loft frá Keflavíkurflugvelli alls 4.405 sinnum, eða að meðaltali 12 sinnum á dag. Að meðaltali var því boðið daglega upp á 4.634 sæti í flugi Flugleiða til og frá landinu. Heildarsætafjöldi í framboði á árinu var 1.691.499, og því liggur nærri að hver Íslendingur hefði getað farið þrisvar sinnum til og frá landinu á árinu með Flugleiðum. Þetta framboð, sem er langt umfram þarfir íslenska markaðarins, skýrist af þátttöku félagsins í alþjóðaflugi, þ.e. því að mikill meirihluti farþega Flugleiða eru útlendingar, ýmist ferðamenn á leið til Íslands eða á leið milli Evrópu og Bandaríkjanna.

Sætanýting hjá Flugfélagi Íslands, dótturfyrirtæki Flugleiða, jókst um 5,5 prósentustig á árinu 2002 en farþegum fækkaði úr um 295 þúsund í um 260 þúsund í takt við minna framboð. Hjá Flugleiðum-Frakt voru flutningar á árinu 2002 11% minni en á árinu 2001.

Farþegum sem áttu erindi til Íslands eða frá Íslandi fjölgaði um 12,8% í desember, en þeim sem fljúga yfir Norður-Atlantshafið um Ísland í vélum Flugleiða fækkaði um 23,1%. Farþegum í millilandaflugi Flugleiða fækkaði í heild um 3.9 % í desember í samanburði við sama mánuð 2001. Þeir voru 66.934 nú en voru 69.655 í desember 2001. Farþegum á almennu farrými fækkaði um 5% en á viðskiptafarrými fjölgaði farþegum um 14,1%. Líkt og á undanförnum mánuðum er samsetning farþegahópsins hagkvæmari en var á árinu á undan, en í desember voru farþegar á leiðum til og frá Íslandi 63% af heildarfjölda farþega á móti 54% á árinu á undan. Í desember minnkaði sætaframboð Flugleiða um 8,4% og salan um 6,1%, sem leiddi til þess að sætanýting var í mánuðinum 1,6 prósentustigi betri en í desember 2001. Hún var 64,2% í desember í ár, en 62.6% á árinu á undan.

Farþegum í innanlandsflugi Flugfélags Íslands fjölgaði í desember um 2,8%, úr 17.448 farþegum í fyrra í 17.940 í ár, á meðan sætanýting félagsins jókst um 1 prósentustig. Hjá Flugleiðum-Frakt voru flutningar nánast alveg jafn miklir og í desember 2001 eða tæplega 2430 tonn.

Frétt: Vísir.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024