Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

16% fjölgun ferðamanna á Suðurnesjum
Þriðjudagur 7. febrúar 2012 kl. 13:37

16% fjölgun ferðamanna á Suðurnesjum



Erlendir gestir í janúar hafa aldrei verið fleiri en í ár, eða frá því Ferðamálastofa hóf talningar í Leifsstöð fyrir áratug. Um 26 þúsund erlendir gestir fóru frá landinu í nýliðnum janúarmánuði og er um að ræða 3.900 fleiri brottfarir en á árinu 2011. Erlendum gestum fjölgaði því um 17,5% í janúarmánuði á milli ára.

Bretar langfjölmennastir

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í janúar frá Bretlandi eða 26,6% af heildarfjölda. Bandaríkjamenn voru næstfjölmennastir eða 15% af heildarfjölda, næstir komu Danir og Norðmenn með 6,6% hlutdeild hvor þjóð, síðan komu Svíar (5,5%), Frakkar (5,3%) og Þjóðverjar (4,9%). Samtals voru framangreindar sjö þjóðir 70,5% af ferðamönnum til landsins í janúar, að því er fram kemur á vef Ferðamálastofu.


Ef litið er til einstakra markaðssvæða má sjá verulega fjölgun frá Bretlandi eða um 53,7%. Ferðamönnum frá Norður-Ameríku fjölgar ennfremur umtalsvert eða um 31,1%. Lítilsháttar fækkun er hins vegar frá Norðurlöndunum (-5,7%) og Mið-/ og S-Evrópu (-8,0).


Ríflega 23 þúsund Íslendingar fóru utan í janúar í ár og er um að ræða svipaðan fjölda og fór utan í janúar í fyrra.


Þá fjölgaði gistinóttum í desember verulega eða um 27% skv. upplýsingum Hagstofunnar


Hagstofan hefur birt tölur um gistinætur á hótelum í fyrra. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.


Gistinætur á hótelum voru samtals 1.488.400 árið 2011 samanborið við 1.309.700 árið 2010. Gistinóttum fjölgaði frá árinu 2010 um 17% á höfuðborgarsvæðinu, 16% á Suðurnesjum, 9% á Austurlandi, 6% á Norðurlandi og um 3% á Suðurlandi sem og samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða. Á árinu 2011 fjölgaði gistinóttum erlendra hótelgesta um 15% og gistinóttum Íslendinga um 10% samanborið við fyrra ár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024