Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

110 fyrirtæki frá SPKEF á Beinu brautina hjá Landsbankanum
Mánudagur 6. júní 2011 kl. 16:40

110 fyrirtæki frá SPKEF á Beinu brautina hjá Landsbankanum


Landsbankinn hefur gert öllum fyrirtækjum sem falla undir Beinu brautina tilboð um endurskipulagningu skulda sinna eins og áður hafði verið lofað. 355 fyrirtæki voru í upphafi talin geta nýtt sér Beinu brautina sem samþykkt var sem úrræði fyrir lífvænleg fyrirtæki með víðtæku samkomulagi í desember á síðasta ári. 230 þessara fyrirtækja fengu tilboð fyrir 1. júní. Nálægt 75 hafa hins vegar ekki enn skilað inn nauðsynlegum gögnum eða hafa óskað eftir því að bíða með endurskipulagningu skulda sinna þar til niðurstaða dómstóla um lögmæti erlendra lána liggur fyrir. Önnur félög hafa ekki talist lífvænleg við nánari skoðun.

Við samruna Landsbankans og Spkef bættust um 110 fyrirtæki við sem hugsanlega geta nýtt sér Beinu brautina. Af þeim fjölda er líklegt að um 70 fái tilboð um endurskipulagningu skulda í júní.

Á síðasta ári setti Landsbankinn á stofn sérstakt svið – Endurskipulagningu eigna – til að fást við skuldavanda fyrirtækja og hraða úrvinnslu mála. Um 430 fyrirtæki hafa fengið fullnaðarafgreiðslu frá bankanum þannig að skuldir þeirra hafa verið endurskipulagðar. Um þessar mundir er Endurskipulagning eigna að vinna með tæplega 700 fyrirtækjum að fjárhagslegri endurskipulagningu, þ.e. flestum þeim fyrirtækjum sem eru í fjárhagslegum erfiðleikum.

Landsbankinn hefur einnig ákveðið að Beina brautin skuli ná til fleiri lífvænlegra fyrirtækja í greiðsluerfiðleikum en upphaflega var stefnt að.

Landsbankinn hefur því rýmkað reglur um mikilvægi eigenda sem gerir fleiri félögum kleift að nýta úrræðið. Einnig býður Landsbankinn fyrirtækjum með heildarvirði hærra en skuldir að nýta sér úrræðið ef þau eru í greiðsluvanda, jafnvel þó ekki þurfi að koma til afskrifta á skuldum þeirra.

„Við hvetjum fyrirtæki enn og aftur til að setja sig í samband við sinn tengilið hjá bankanum og kanna hvað hægt er að gera“, segir í tilkynningu frá bankanum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024