100 herbergja hótel á Ránni
- Continental Bridge Hótel - Yrði eitt stærsta hótel á Suðurnesjum
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum þann 10. febrúar sl. fjögurra hæða byggingu ofan á hús nr. 19, 19a og 21 við Hafnargötu og einnar hæðar byggingu á baklóð nr. 21 en stefnt er á að reka þar um 100 herbergja hótel sem yrði þá eitt hið stærsta á Suðurnesjum.
Umsækjendur eru Tvíhorf - arkitektar en að verkefninu standa feðgarnir Þorleifur Björnsson og Björn Vífill Þorleifsson, eigandi veitingastaðarins Ráarinnar, sem stendur við Hafnargötu 19.
Hótelið gengur undir nafninu Continental Bridge Hótel og vísar það til brúarinnar milli heimsálfa á Reykjanesi og tekur hönnun byggingarinnar mið af því þar sem tvær byggingar eru tengdar saman með tengibrú við aðalinngang.
Gert er ráð fyrir 12 bílastæðum á lóð með aðkomu frá Ægisgötu og lágreistu húsi á lóð Hafnargötu 21 til samræmis við byggingu á lóð nr. 23.
Að sögn Þorleifs er mikilvægt að íbúar, fyrirtækin og sveitarfélagið taki höndum saman og byggi Reykjanesbæ upp sem góðan kost fyrir ferðamenn enda lenda þeir í túnfæti bæjarins og bruna flestir framhjá. „Gamli bærinn þarf á uppbygginu að halda til að stuðla að bættri þjónustu, menningu og mannlífi fyrir ferðamenn sem og íbúa Reykjanesbæjar.“
Hótelið mun bjóða einstaka sjávarsýn frá Ægisgötu.