„Fólk hugsar mjög vel um dýrin sín í dag“

- segir verslunarstjóri Dýrabæjar, Auður Eva Guðmundsdóttir

„Dýrabær er búinn að vera í Krossmóa í næstum því sex ár en í mars á næsta ári verður verslunin sex ára og það hefur gengið afar vel hjá okkur síðan við opnuðum verslunina,“ segir Auður Eva Guðmundsdóttir, verslunarstjóri í Dýrabæ.“

„Margir halda að við séum hætt en við fluttum okkur aðeins til í Krossmóanum fyrir nokkrum vikum síðan og okkur langar að bjóða Suðurnesjabúum í nýju og betrumbættu búðina okkar. Búðin er örlítið minni en hin en það rúmast allt mjög vel inn í henni, hún er bjartari og þetta er skemmtilegt rými. Við bjóðum hundaeigendum ennþá upp á það að koma inn í verslunina með hundana sína en þeir geta komið inn um dyr sem eru staðsettar við hliðina á lagerhurðinni hjá Bílanaust. Við erum mjög ánægð með Suðurnesjafólk almennt því þetta eru skemmtilegustu viðskiptavinirnir. Ég hef unnið í verslunum Dýrabæjar í bænum og hér er mjög góður og fastur viðskiptahópur sem kemur að versla við okkur. Við sjáum það mjög sterkt að fólki þykir mjög vænt um dýrin sín hér og það er okkar markmið að sinna því fólki vel, bæði að hjálpa þeim að velja vörur og einnig almenn aðstoð.“

Hundar velkomnir með eigendum sínum
„Það eru fjölmargir sem koma með hundana sína í heimsókn til okkar og það er skemmtilegur partur af okkar starfi, það er gaman að sjá þá og fá að kynnast þeim en það hefur orðið töluverð aukning í gæludýraeign hér og Suðurnesjafólk hugsar mjög vel um hundana sína. Það vill fá gott fóður og vill vanda sig með valið. Stefnan okkar hefur alltaf verið sú að bjóða upp á gæðavöru á góðu verði og góða þjónustu. Fólk fær ráðleggingar hjá okkur um allt milli himins og jarðar og við erum mikið að aðstoða fólk með fóðurval.“

Fólki annt um hvað dýrin þeirra borða
„Það er töluverð sala í fóðri og er Barking Heads ein af okkar vinsælustu vörum en hún er búin að slá í gegn hjá okkur. Þar sameinast gott verð, fóður og innihaldið er gott. Fólk er meira að pæla í því í dag heldur en áður, hvað það er að gefa dýrunum sínum að borða. Í dag fá dýrin ekki hvað sem er að borða en við höfum einnig verið að uppfæra kattarvörurnar hjá okkur. Kattaeigendur hugsa töluvert mikið um það í dag hvað kötturinn sé að borða og hvort honum líði vel.“

Hægt er að versla föt á dýrin sín sem eru nauðsynleg í kuldanum

Bjóða líka upp á smádýravörur
„Vöruúrvalið okkar í dag er orðið töluvert meira heldur en það var fyrir tæpum sex árum síðan og búðin er stútfull af skemmtilegum vörum. Við erum líka með smádýravörur, vörur fyrir fugla og fiska en við verðum ekki með dýrin sjálf til sölu hjá okkur heldur bara vörur fyrir þau. Hingað getur fólk komið og fengið allar nauðsynjar fyrir dýrin sín. Við erum með mikið úrval af beislum og ólum en beisli fyrir hunda eru alltaf að verða vinsælli en hálsólarnar halda alltaf velli. Hálsólarnar eru jafnvel notaðar sem skraut og við bjóðum líka upp á merkispjöld sem við búum til á staðnum þannig hægt er að koma og fá merki fyrir hunda og ketti til að setja á ólarnar þeirra. Það tekur ekki langan tíma að útbúa eitt merki og úrvalið er mikið.“

Bestu vinirnir fara ekki í jólaköttinn í ár

Snjógallar og loppuhlífar fyrir hunda
„Við bjóðum upp á mikið úrval af þjálfunarvörum fyrir hunda og einnig fatnað, úrvalið af fatnaði spannar þó ekki heilan vegg en það er þó alltaf eitthvað til af honum. Nýverið tókum við upp snjógalla fyrir hunda þar sem það er orðið frekar kalt úti fyrir litla hunda með lítinn feld. Það er líka hægt að fá loppuhlífar hjá okkur sem verja loppurnar í kuldanum, bæði gúmmílhlífar og þykkari hlífar. Við bjóðum líka upp á loppuvax fyrir þurrar eða sprungnar loppur og vaxið hlífir loppunum gegn kuldanum.“

Hægt er að fá merkingu fyrir hálsólar á ketti og hunda í Dýrabæ

Blikkljós vinsæl í myrkrinu
„Í Dýrabæ er líka hægt að fá góð bætiefni fyrir hunda en margir gamlir hundar þjást af gigt og eigendur vilja líka fá góð bætiefni fyrir feldinn, sérstaklega ef hundurinn þeirra er með mikið hárlos. Fóðurval skiptir miklu máli til að viðhalda feldinum og líka góð olía eða fæðubót. Við erum með endurskins vesti til sölu hjá okkur, endurskins ólar og blikkljós en þau eru alltaf að verða vinsælli. Það er gott að hafa blikkljósin á hundinum sínum þegar farið er út að labba í myrkrinu því oft sést hundurinn á undan eiganda sínum, þá með blikkandi ljós eða í endurskins vesti.“