„Áhætta að opna fyrsta hótelið á svæðinu“

Hótel Keflavík hlaut Þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi á dögunum en hótelið hefur verið starfrækt frá árinu 1986 eða í þrjátíu og tvö ár. Hótelið opnaði þann 17. maí 1986, en Steinþór Jónsson byggði hótelið upp ásamt fjölskyldu sinni, það hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin og var meðal annars fyrsta fimm stjörnu hótel landsins.

Var stórhuga og vildi opna hótel
Steinþór og bróðir hans Magnús voru í heimavistarskóla á sínum unglingsárum  en þegar þeir komu til baka þá var hafist handa við að byggja hótelið.

En hvers vegna hótel?
„Það byrjaði með því að amma mín, Sigríður Stefánsdóttir, fór í aðgerð í Reykjavík, hún var á sjúkrahóteli og okkur fannst spennandi hugmynd að vera með sjúkrahótel í tengslum við D-álmuna. Þegar var síðan farið að koma að þessu þá fékk ég þá hugmynd að byggja hótel og var svolítið stórhuga. Ég vildi líka að það héti Hótel Keflavík en það er svolítið sérstakt að horfa til baka því hótelin hér á árum áður voru svo fá, staðsett á höfuðborgarsvæðinu og ekkert hótel hér á þessu svæði. Reykjanesið hafði aldrei verið gististaður og vorum við þau fyrstu sem buðum upp á þá þjónustu.“

Hótel Keflavík

Byrjaði sem fínt gistiheimili
Herbergin voru tuttugu og tvö talsins þegar hótelið opnaði en fjölgaði fljótlega í þrjátíu og tvö. Við spurðum Steinþór að því hver munurinn er á því að reka hótel í dag og árið 1986. „Í byrjun má eiginlega segja að við höfum verið að opna fínt gistiheimili en í dag er hótelið fimm stjörnu hótel, þannig að munurinn liggur kannski þar. Tækninni hefur líka farið töluvert fram en á okkar fyrstu árum þá var allt handskrifað og tippex var óspart notað til að strika yfir þá gesti sem höfðu afbókað sig, það gat verið heilmikil vinna að strika yfir stóran hóp. Árið 1987 byrjum við síðan að tölvuvæða okkur, hönnuðum meðal annars tölvuforrit fyrir gestina okkar og vorum fyrst í heimi til að litakóða bókanir.“

Inngangur hótelsins

Áhætta að opna fyrsta hótelið
Steinþór segir að starfsmannahald hafi gengið vel í gegnum árin og að hótelið hafi náð að halda vel í starfsfólkið sitt og að margir hafi unnið hjá þeim í áraraðir. Hann er einnig af ar stoltur af Hvatningarverðlaununum og segir að það hafi verið ákveðin áhætta að opna hótel á svæði þar sem að ekkert hótel var. „Ég hugsa til byrjunarinnar og kjarks og þors foreldra minna, þau vissu vel að þetta var áhætta þar sem að ekkert hótel hafði verið hér áður, en hefur þetta heppnast mjög vel. Við vorum svo heppin þegar herinn var staðsettur hérna á svæðinu að margir gesta okkar voru tengdir honum, meðal annars áhafnir. Í dag gengur mjög vel og það er með ólíkindum hvað allt hefur farið mikið betur heldur en við höfðum best vonað.“

Meiri vinna í dag en áður
Eins og áður hefur komið fram hefur margt breyst frá því að hótelið opnaði og Steinþór segir að vinnan sé töluvert meiri í dag en þá. „Vinnan í dag er meiri en þá, eða öðruvísi. Hér áður vorum við hér allan sólahringinn, ég var að vinna á daginn og svaf síðan í „lobbíinu“ á nóttunni, þó svo að ég ætti heima rétt hjá, viðveran var meiri. Í dag eru þó töluvert aðrar kröfur, sérstaklega í tölvu- og bókunarmálum, svo eru gestir kröfuharðari í dag.“ 

Feðgar á góðri stund

Enginn undirbúinn fyrir fjölgun ferðamanna
Talað hefur verið um að ferðamönnum sé að fækka á Íslandi en Steinþór segir að Ísland hafi ekki verið tilbúið í ferðamannasprengjuna sem átti sér stað fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan. „Árið 2016 var sérstakt en mjög erfitt var að fá gistingu á öllu landinu þá, við vorum alls ekki undirbúin fyrir allan þann fjölda sem mætti til landsins það ár. Aukningin var gríðarleg og enginn var klár í að taka á móti öllu þessu fólki.“

Úr Diamond Suite á Hótel Keflavík

Stöðugt í uppbyggingu
Hótelið er í stöðugri uppbyggingu og í dag er heil hæð fokheld, verið er að breyta sex herbergjum á þeirri hæð og er eldhúsið og veitingastaðurinn í yfirhalningu. „Við erum í fallegu húsnæði og viljum að veitingastaðurinn okkar sé fyrsta flokks, að hann endurspegli gistinguna og lúxusherbergin. Við stefnum að því að endurnýja allt hótelið jafnt og þétt þannig að elsta herbergið verði í raun og veru aldrei eldra en fjögurra ára, þó svo að hótelið sé frá 1986.“

Umsögn frá Ferðaþjónustu Reykjaness. Hvatningarverðlaun: Hótel Keflavík

Þrátt fyrir að alþjóðaflugvöllur hafi staðið í útjaðri Keflavíkur í áratugi var það fyrst árið 1986 sem fyrsta hótelið í bænum var opnað. Okkur kann að finnast það ótrúlegt í dag með 106 skráða gististaði á svæðinu. Þá eru aðeins 32 ár síðan.

Í febrúar 1986 drógu feðgarnir Jón William Magnússon og Steinþór Jónsson fram teikningar af hóteli í bænum, réðu til sín verktaka og reistu 1.250 fermetra byggingu á fimm hæðum.

Árið 1986 var fjöldi ferðamanna á Íslandi aðeins brotabrot af því sem hann er í dag.

Afþreyingarmöguleikar og þjónusta var sömuleiðis ekki sú sama. Sagan segir að fyrstu gestir hótelsins hafi verið sjóstangveiðimenn og hafi fyrsti dagurinn farið í þrif þar sem þeir geymdu aflann undir rúmum.

Síðan þá hefur hótelið stækkað og þjónusta við ferðamenn aukist, t.d. var efsta hæð hótelsins endurnýjuð fyrir tveimur árum og þar opnað fimm stjörnu hótel, hið fyrsta á Íslandi. Á þessum tíma hefur hótelið þó verið rekið á sömu kennitölu og af sömu fjölskyldu.

Stjórnir Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness eru sammála um að Hótel Keflavík sé vel að því komið að hljóta þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi árið 2018, fyrir það frumkvöðlastarf sem unnið hefur verið.