Sólmyrkvi verður að sakamáli á Suðurnesjum

„Lögreglan á Suðurnesjum hefur hafið rannsókn á hugsanlegu sakamáli sem átti sér stað í morgun. Eins og allir vita þá hefur veðrið ekki verið að leika við okkur undanfarnar vikur og hefur hver lægðin á fætur annarri verið að trufla okkur. Nú í morgun gerðist sá atburður að sól fór að skína okkur til mikillar gleði. Ekki stóð þessi gleði lengi yfir þar sem einhver ákvað að henda tunglinu fyrir sólina.
Höfum við einsett okkur að komast að því hver var þarna að verki“.

Þetta kemur fram á fésbókarsíðu Lögreglustjórans á Suðurnesjum og er færslan skreytt með ljósmynd sem Sigurður Bergmann lögregluforingi tók af sönnunargagninu.