Rapparinn 2 Chainz borðar hamborgara með gulli

Rapparinn 2 Chainz gæddi sér á einum dýrasta hamborgara í heimi á dögunum. Borgarinn sem kallast Le Burger Extravagant fæst í New York borg á veitingastaðnum Serendipity 3. Borgarinn kostar 295 dali (rúmlega 35 þúsund krónur) en hann þarf að panta með 48 klukkustunda fyrirvara. Það er vegna þess að sérstaklega þarf að flytja inn hráefnið í borgarann. Meðal hráefna sem finna má í borgaranum er 24 karata gull, ostur sem ræktaður er í helli, egg úr kornhænu og dýrasti kavíar í heimi. Kjötið í borgaranum er svo japanskt Waygu nautakjöt. Til þess að halda borgaranum saman er svo notaður tannstöngull með demanti, en ekki hvað.

Með því að kaupa þennan góðborgara lætur þú einnig gott af þér leiða, en hagnaðurinn af borgaranum góða rennur til heimilislausra í New York borg. Hér að neðan má sjá myndband þegar rapparinn 2 Chainz fékk að smakka þennan dýrindis skyndibita.