Ráðherrasonur hótar að flytja að heiman

– Hálfur kleinuhringur kom í veg fyrir áformin.

Helgi Matthias, sonur Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var alls ekki sáttur við að það væri lax í matinn, fannst það eiginlega bara alveg ómögulegt og reyndi hvað hann gat til að komast undan því að borða. Mamman var hins vegar ekki á því að gefa sig og lax var það fyrir unga manninn. Frá þessu greinir ráðherrann á fésbókarsíðu sinni í gærkvöldi

„Eftir mat kallaði hann á fjölskyldufund þar sem hann afhenti mér þetta bréf og bað mig að lesa það upphátt fyrir alla fjölskylduna,“ segir Ragnheiður Elín.

Innihald bréfsins var stutt og laggott: „Ég er farinn að heiman“

„Svo dreif hann sig í skóna og var á leiðinni út. Hætti þó við þegar honum stóð til boða hálfur kleinuhringur í eftirmat. Ákvað að minnsta kosti að bíða með þetta. Hjúkk“, segir ráðherra að lokum í færsu sinni.