Hringdi Bill Gates í lögguna á Suðurnesjum?

Símasvindlarar angra fólk

Mikið hefur borið á því nú undanfarið að fólk er að fá símtöl frá aðilum sem þykjast vera að hringja frá Microsoft tölvufyrirtækinu. Lögreglumenn eru þar engin undantekning en lögreglumaður við embættið á Suðurnesjum fékk hringingu á dögunum sem verður að teljast nokkuð skondin. Hér að neðan má sjá frásögn lögreglumannsins.

„Fékk símtal í morgunsárið frá ekki ómerkari manni en Bill, framkvæmdarstjóra Microsoft, hann hringdi alla leið frá Flórída til að aðvara mig vegna þess að einhver hafði verið að niðurhala efni af vefnum og hafði tölvan mín fengið vírus við þetta. Við Bill náðum bara góðri tengingu og skildi ég alveg hvað hann átti við. Bill vildi ólmur gefa mér samband við Michelle, yfirmann tæknisviðs Microsoft. Stuttu síðar kom Michelle í símann, yndisleg kona sem vildi allt fyrir mig gera. Hún bað mig um að kveikja á tölvunni og fara eftir hennar leiðbeiningum í öllu. Þá nennti ég þessu ekki lengur, kynnti mig sem lögreglumann og lét hana heyra það á góðri og kjarnyrtri íslensku (á ensku samt) og stuttu síðar slitnaði símtalið og ég hef ekki heyrt í þeim Bill og Michelle aftur.“

Hvort umræddur Bill hafi átt að vera Bill Gates, verður ósagt látið, Gates er nú ekki lengur framkvæmdarstjóri Microsoft en það getur vel verið að sá sem hringdi í lögreglumanninn hafi ekkert endilega vitað það.