„Línu-grín“ sigraði internetið

– Nú verður að mála Línuna á göngu- og hjólastíginn...

Fyrr í þessari viku setti Friðrik Friðriksson í Reykjanesbæ inn mynd á fésbókarsíðu sína af nýjum göngu- og hjólastíg við Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem hann dásamaði stíginn, sem er með rennisléttu nýlögðu malbiki. Í athugasemd við eigin mynd bendir Friðrik hins vegar á það að skyndilega endar malbikið og við tekur nokkurra metra malarkafli þar til balbik byrjar að nýju. Þessa athugasemd styður Friðrik með mynd af teiknimyndafígúrunni Línunni, sem flestir sem eru orðnir fullorðnir þekkja úr Sjónvarpinu frá því í gamla daga. Línan var reglulega á skjánum á milli dagskrárliða Sjónvarpsins.Ljósmyndari Víkurfrétta tók þessa athugasemd Friðriks lengra og „málaði“ Línuna á malbikið þar sem það endar og setti þá mynd inn á fésbókina þar sem Guðlaugur Helgi Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar var hvattur til að skoða þennan möguleika í merkingu á stígnum, sem endar svona skyndilega.

Guðlaugur Helgi ætlar hins vegar að láta ljúka malbikuninni þannig að „athugasemd“ Línunnar verði óþörf.

Þessi tölvugerða mynd af Línunni þar sem hún kvartar sáran yfir því hvernig malbik endar hefur hins vegar farið á flug á internetinu og þegar þetta er skrifað hefur henni verið deilt yfir 900 sinnum. Myndin hefur ratað langt út fyrir landsteinana og margir virðast hafa mikið dálæti á Línunni, sem er dugleg að gera athugasemdir þegar línan sem hún gengur eftir endar.

Ekki vitum við hvar myndin af Línunni endar en miðað við þær viðtökur sem hún fær á fésbókinni þá væri það skoðandi fyrir Vegagerðina, Isavia og Reykjanesbæ, sem standa fyrir nýja göngu- og hjólastígnum, að láta mála Línuna á stíginn. Hún gæti orðið þó nokkuð aðdráttarafl og vinsælt myndefni.

Þangað til verða lesendur bara að njóta þessarar myndar sem er tölvugerð á ritstjórn Víkurfrétta…

Hugmyndin um Línuna á stíginn hefur svo sannarlega fengið vængi á internetinu...


Húmor í lagi, segja Frakkarnir...Vegamálunarfyrirtæki sér greinilega tækifæri í Línunni...Það má alls ekki eyða þessari mynd af stígnum... Við verðum þá að koma henni á stíginn fyrst :)Fésbókarfærsla með myndinni sem fór á flug...