Mánudagur 30. júní 2014 kl. 10:15

Yfirvegað neyðarkall TF-KFB

– Hægt er að hlusta á neyðarkallið hér

Neyðarkall frá flugmanni TF-KFB sem nauðlenti við Kálfatjarnarvöll, golfvöllinn á Vatnsleysuströnd, var yfirvegað. Í meðfylgjandi myndskeiði má m.a. hlusta á neyðarkallið.

Rétt um klukkan hálf fimm síðdegis í gær gaf flugvél frá Flugakademíu Keilis (TF-KFB) frá sér neyðarkall til flugturnsins í Keflavík þar sem hún var á leið inn til lendingar. Tilkynnt var um gangtruflanir í hreyfli og nauðlenti vélin við golfvöllinn á Vatnsleysuströnd.

Um borð voru flugkennari og flugnemi sem sakaði ekki við lendinguna, en voru þó flutt á Landspítalann í Reykjavík til nánari skoðunar.

Rannsóknarnefnd Samgönguslysa fór á vettvang og sér um rannsókn málsins.

Á þessu stigi geta forsvarsmenn skólans ekki tjáð sig nánar um tildrög slysins, segir í tilkynningu frá Keili.

Flugakademía Keilis vill koma þökkum til allra sem aðstoðuðu á vettvangi, segir jafnframt í tilkynningunni.