Þriðjudagur 22. maí 2018 kl. 06:00

X18 - Guðbrandur Einarsson: Skemmtilegri Reykjanesbær

Hver eru stærstu kosningamálin í Reykjanesbæ fyrir þessar kosningar?
Þau geta verið nokkur. Við erum ennþá að glíma við þann fjárhagsvanda sem við upplifðum árið 2014. Við erum komin vel á veg og við munum þurfa að eyða þessu kjörtímabili í að takast á við það líka. Það hlýtur að vega þungt. Auðvitað er þjónustan við íbúana mikið mál og skattbyrði almennt sem við þurfum að skoða. Við höfum verið að upplifa mikla hækkun á íbúaverði og það hefur orsakað talsverða breytingu á fasteignasköttum, við þurfum að skoða það á þessu kjörtímabili. Svo er það auðvitað þessi mikla uppbygging sem er að eiga sér stað hér. Það er fjöldi áskorana sem við stöndum andspænis vegna þeirra. Við þurfum að byggja nýjan skóla og að minnsta kosti tvo leikskóla, þannig það eru stór og veigamikil verkefni sem bíða okkar á þessu kjörtímabili.


Hver eru helstu málefni ykkar framboðs, Beinnar leiðar, að þessu sinni?
Bein leið eru nú bara grasrótarsamtök sem spretta upp úr hreyfingu íbúa hér í sveitarfélaginu sem vildu vinna sínu sveitarfélagi vel og við viljum gera það áfram. Okkur langar til að bæta samfélagið okkar og það er margt sem við getum gert. Við höfum talað um skemmtilegri Reykjanesbæ, við viljum leggja áherslu á menninguna og að ungt fólki geti haft gaman að því að búa hérna, þetta sé ekki leiðindi, malbik og peningar heldur einhverjar leiðir til þess að reyna að njóta og hafa gaman að því að vera til.


Hver er ykkar skoðun á starfseminni í Helguvík?
Ég held að menn viti alveg skoðun mína á því. Ég er búinn að vera mjög einarður í því að hafna þeirri mengun sem átt hefur sér stað þarna. Ég hafði nú frumkvæði að því að kalla til Umhverfisstofnun og við kröfðumst þess í bæjarstjórninni að verksmiðjunni yrði lokað. Við munum halda þeirri skoðun á lofti, að minnsta kosti á meðan ekkert er gert í mengunarmálum þarna.


Hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér sem fyrirmyndar sveitarfélag í framtíðinni?
Núna erum við auðvitað að fara upp brekku og erum búin að vera að því í talsverðan tíma. Við erum auðvitað að upplifa mikla fólksfjölgun og við erum að upplifa breytingu á samfélaginu okkar. Við erum að sjá þetta samfélag breytast úr fiskimannasamfélagi í það að verða fjölmenningarsamfélag. Það mun auðvitað breyta samfélaginu okkar og ég held við munum njóta þess til framtíðar horft að hafa svona mikla fjölbreytni í þessu samfélagi. Ég held við megum ekki einblína eingöngu á flugvöllinn, að hér verðum við bara þjónustubær við flugvöllinn. Við viljum búa til okkar eigin bæ, á okkar eigin forsendum.