Þriðjudagur 22. maí 2018 kl. 06:00

X18 - Friðjón Einarsson: Fjármálin og framtíðin

Hver eru stærstu kosningamálin í Reykjanesbæ fyrir þessar kosningar?
Fjármál og framtíðin eru stærstu málin, hvernig við viljum hafa samfélagið okkar. Við þurfum fyrst og fremst að hafa fjármálin okkar í lagi. Hvernig við tökum á móti öllu þessu fólki sem er að koma til okkar og veita þá þjónustu sem við verðum að gera. Skólar, leikskólar, lóðir, þetta er allt í mjög góðum farvegi hjá okkur þannig ég óttast ekki framtíðina. Aðallega að samfélagið fái að njóta þess sem vel hefur gengið á síðustu fjórum árum, við erum á réttri leið.


Hverjar eru áherslur Samfylkingarinnar að þessu sinni?
Það er kannski fyrst og fremst að við höldum áfram á þeirri leið sem við erum, að fjármálin séu í lagi. Það er búið að vera erfitt en nú erum við komin á beinu brautina og við þurfum að halda okkur þar næstu árin til þess að samfélagið fái að njóta þess sem það á skilið. Íbúarnir hafa þurft að vera í dálitlu fangelsi undanfarin ár og núna er kominn tími til að þeir fái að njóta. Við stefnum að því að lækka fasteignagjöldin enn frekar, útsvar lækkar um þrjú hundruð milljónir á næsta ári. Við munum bæta göngustíga, vegi, sem hefur verið takmarkað gert á undanförnum árum.


Hver er ykkar skoðun á starfseminni í Helguvík?
Fyrir einu og hálfu ári síðan lýsti ég því yfir að það ætti að fara með framtíð United Silicon í íbúakosningu. Ég vil að það verði gert. Þú breytir ekki fortíðinni en fgetum haft áhrif á framtíðina. Við erum búin að samþykkja núna, bæjarstjórnin að tillögu Samfylkingarinnar, að banna mengandi stóriðju í Helguvík. Það eina sem við getum gert er að að nota tækin okkar, það er deiluskipulagið, ef menn ætla að fara að breyta byggingum. Við munum þá setja það í atkvæðagreiðslu þannig að íbúarnir fá að ráða því. Þetta höfum við sagt nú í eitt og hálft ár og við munum gera það.


Hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér sem fyrirmyndar sveitarfélag í framtíðinni?
Þetta er náttúrulega besta sveitarfélagið á Íslandi. Hér er gott að búa, gott fólk, mikil fjölmenning og ég sé okkur búa hérna á yndislegum stað, þar sem skuldastaðan er góð og við getum gert lífið betra fyrir samfélagið. Hérna eiga helst allir að vera hamingjusamir, þannig sé ég framtíðina fyrir mér. Hér ætla ég að vera.