Laugardagur 24. mars 2018 kl. 06:00

Voru með eina byggingakranann á svæðinu 2014

„Allt aðrar kröfur í byggingageiranum í dag en áður,“ segir Halldór Ragnarsson hjá Húsanesi ehf. sem hefur byggt að undanförnu í Innri-Njarðvík en mun einnig byggja við ströndina í Keflavík

„Það er óhætt að segja að markaðurinn hafi vaknað og tekið við sér en eini byggingarkraninn árið 2014 í Innri-Njarðvík var frá okkur. Nú sýna margir aðilar Suðurnesjum mikinn áhuga og vilja taka þátt í fjörinu en það er kannski eðlilegt þar sem Suðurnesin eru sætasta stelpan á ballinu,“ segir Halldór Ragnarsson hjá verktakafyrirtækinu Húsanesi í Reykjanesbæ, en það er einn umsvifamesti byggingaraðilinn á Suðurnesjum. Húsanes setti nýlega í sölu tíu tvíbýlishús við Leirdal í Innri-Njarðvík og er að ljúka við sex önnur á næstunni og hefur selt stóran hluta þessara íbúða. Á framkvæmdalista fyrirtækisins eru meðal annars 5-6 fjölbýlishús við ströndina í Keflavík.

Byrjaði aftur í Bjarkadal

Húsanes afhenti fyrstu íbúðirnar eftir hrun 2014-15 en það voru 15 íbúðir í Bjarkadal í Innri-Njarðvík. Fyrirtækið einhenti sér síðan í framkvæmdir við sérbýli sem það er núna komið langt með við Leirdal. „Við keyptum fimm uppsteypt, stór 260 m2 einbýlishús sem við ákváðum að breyta í vegleg og vönduð tvíbýli. Svo byggðum við sex önnur hús þannig að þetta eru sextán íbúðir í heildina, frá tæplega 100 fermetrum upp í 156 fermetra að stærð,“ segir Halldór og Heiðar sonur hans sem stýrir fyrirtækinu með honum bætir við að frá upphafi verið ákveðið að vanda til verka með vönduðum innréttingum og eldhústækjum, gólfhita, íslensku gluggum sem ná niður í gólf sem eru lögð fallegum ítölskum flísum. „Svo fylgja íbúðunum annað hvort tæplega 60 fermetra timbur-sólpallur eða 70 fermetra hellulagðar þaksvalir með möguleika á að fá heitan pott með. Eignirnar eru fjögurra herbergja en líka er hægt að fá þær þriggja herbergja,“ segir Heiðar.

Halldór segir að kröfur hafi breyst mikið frá því sem var á árum áður. Þá var algengt að íbúðir væru afhentar tilbúnar undir tréverk en nú er öldin önnur.

„Kröfurnar hafa breyst og eru allt aðrar í dag. Okkar metnaður er líka í þeim anda og við viljum skila okkar íbúðum fullbúnum til að flytja strax inn í þær. Við fengum arkitekta í lið með okkur til að hafa alla hluti í lagi, ekki bara að utan heldur líka innréttingar og ljósabúnað“.

Næsta verkefni fyrirtækisins er bygging 36 íbúða í sex íbúða kjörnum við Unnarsdal, steinsnar frá íbúðunum í Leirdal. Heiðar segir að þar verði minni íbúðir sem muni henta betur fólki sem er að kaupa í fyrsta sinn en þó verði lagt upp með gæði og frágang upp á það besta.

Margir brenndir eftir hrun


Halldór segir að ástæðan fyrir því að verktakar byrjuðu ekki fyrr að byggja sé sú að margir hafi verið brenndir eftir hrun og mikið framboð hafi verið af íbúðum á svæðinu, bæði í eigu Íbúðalánasjóðs og síðan á Ásbrú. Nú sé það að mestu komið í notkun og söluverð á fasteignum á Suðurnesjum hefur verið á hraðri uppleið og því sé allt komið á fullt í byggingum. „Lengi vel var fasteignaverð 30-50% lægra en á höfuðborgarsvæðinu en nú hefur það breyst og verðið hækkað mikið á Suðurnesjum. Þegar hægt var að hefja sölu á íbúðum á sannvirði var orðið áhugavert fyrir verktaka að framleiða,“ segir Halldór.

Íbúðirnar í tvíbýli í Leirdal kosta um 380 þús. kr. á fermetrann en Halldór segir það mjög sanngjarnt og sé svipað og í mörgum fjölbýlum. „Við erum að bjóða góða vöru á mjög sanngjörnu verði.“

Tvíbýlishús frá Húsanesi í Leirdal

Efri sérhæð 97,4 m² með 67,5 m² þaksvölum án bílskúrs 39,9 m.kr.
Efri sérhæð 133,8m² með bílskúr og 67,5 m² þaksvölum 47 m.kr.
Neðri sérhæð 120 m² með 58 m² sólpall án bílskúrs 47 m.kr.
Neðri sérhæð 156,4 m² með bílskúr og 58 m² sólpall 54,5 m.kr.

Halldór Ragnarsson og Heiðar Halldórsson í eldhúsinu í sýningaríbúðinni.

Íbúðirnar eru sérlega glæsilegar, ýmist með sólpalli eða þaksvölum þar sem pottur getur fylgt.



Séð inn í sýningaríbúðina við Leirdal. 

 

Fjölbýlishús við ströndina í Keflavík

Húsanes er með í bígerð að byggja 5-6 stór fjölbýlishús við ströndina í Keflavík, helming þeirra við Keflavíkurhöfn og hin við Framnesveg. „Við erum að tala um  áhugaverðustu lóðirnar í Reykjanesbæ fyrir fólk á miðjum aldri og eldra. Við erum með metnaðarfull áform og stefnum á byggingu fjölbýlishúsa við ströndina, skemmtilegar íbúðir þar sem lögð er áhersla á gott útsýni, bílakjallara og þægindi, þriggja til fimm hæða. Þetta er enn í skipulagsferli hjá bæjarfélaginu. Við viljum vinna þetta í sátt við bæinn. Það verður langt á milli húsa svo útsýni nýtist best. Viljum að lóðirnar fái að njóta sín. Þetta eru perlur í Keflavík og við ætlum að umgangast þær í takt við það. Vonandi hefjast framkvæmdir á þessu ári en í síðasta lagi vorið 2019,“ sagði Halldór.