Miðvikudagur 18. júní 2014 kl. 23:35

Video: Svangur Hunter tók vel til matar síns

Hin sænska Katarina Reinhall var svo sannarlega ánægð nú í kvöld þegar hún náði að fanga hundinn sinn hann Hunter í hólma við Þórshöfn í Ósabotnum.

Katarína var við leit að hundinum sínum í kvöld þegar hans varð vart í hólmanum. Hún þurfti að vaða sjó upp í mitti til að komast út í hólmann. Þar þurfti hún að beita talsverðri lægni til að ná Hunter. Hún óð síðan með hundinn áleiðis í land. Þegar hún var með sjóinn upp í mitti kallaði hún hins vegar eftir aðstoð tveggja björgunarsveitarmanna úr Björgunarsveitinni Ægi í Garði, sem voru með henni við leitina í kvöld. Björgunarsveitarmennirnir Ingólfur Sigurjónsson og Björn Bergmann Vilhálmsson óðu því út í sjóinn til Katarinu og báru Hunter í land.

Katarinu og hundinum var komið inn í bíl. Eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði sem Víkurfréttir tóku í kvöld var Hunter orðinn svangur eftir óvissuferð sína um Miðnesheiðina síðustu sólarhringa.

Að kröfu Tollgæslunnar var farið með Hunter beint upp á Keflavíkurflugvöll og átti hann að fara í sérstakt búr í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þar átti að taka úr honum blóðsýni.

Katarina sagði að hún myndi ekki víkja frá hundinum fyrr en hann væri örugglega kominn um borð í flugvél og lagður af stað til Svíþjóðar.

Meðfylgjandi myndskeið tók Hilmar Bragi nú í kvöld þegar Hunter var kominn í bíl í Þórshöfn og haldið var með hann til Keflavíkurflugvallar.