Laugardagur 18. nóvember 2017 kl. 05:00

Við erum mjög ólíkir karakterar

Þríburasysturnar Anna Margrét, Natalía Jenný og Thea Ólafía Lucic Jónsdætur eru fimmtán ára gamlar, en árið 2002 voru þær fyrstu þríburarnir sem höfðu fæðst í Grindavík. Víkurfréttir heimsóttu stelpurnar og foreldra þeirra fyrir fimmtán árum síðan en það kom í ljós þegar móðir þeirra var komin fimm mánuði á leið að hún ætti von á þríburum. Að sögn Jóns og Jönju, foreldra stelpnanna, var þetta töluvert sjokk en um leið þvílík gleði.

Anna, Natalía og Thea æfa körfubolta og fótbolta af kappi en þær spila allar með meistaraflokki kvenna í Grindavík í 1. deildinni í körfubolta. Við hittum þær systur í íþróttamiðstöð Grindavíkur og spurðum þær um körfuna, lífið og framtíðarplönin.

Anna Margrét

Hvenær byrjaðir þú að æfa körfu?
Ég byrjaði í 1. bekk og ég hef ekki tekið mér neina pásu síðan. Ég æfi líka fótbolta og er markmaður.

Hvaða stöðu spilar þú?
Bakvörður í körfunni og tek stundum „point guard“.

Hvernig er að æfa með systrum sínum?
Það er gaman en stundum getur það verið smá pirrandi.

Er keppnisskap á milli ykkar?
Já, ef við erum í sitthvoru liðinu þá pirrum við stundum hverja aðra.

Hvernig undirbýrð þú þig fyrir leik?
Ég hvíli mig og fer snemma upp í rúm að sofa kvöldinu áður.

Hver er mesta svefnpurkan?
Ég.

Hver er alltaf sein?
Ég er líka alltaf sein.

Farið þið stundum að rífast yfir einhverju ómerkilegu?
Við rífumst oft yfir einhverju sem við eigum ekki að rífast yfir.

Hvað er skemmtilegast við körfuboltann?
Að ná að vera ég sjálf og spila með liðinu mínu.

Hvernig er liðsheildin hjá ykkur hér í Grindavík?
Mjög góð og ekkert drama, allt sem gerist á æfingu fer ekkert lengra en það og það er mjög gott.

Hver eru framtíðarplönin?
Halda áfram í körfu og mig langar að komast út í skóla og spila úti, það er örugglega mjög gaman.

Eruð þið líkar?
Nei, við erum mjög ólíkar og ólíkir karakterar. Það er ekkert eitthvað mikið svipað með okkur.

Hvernig leggst veturinn í þig?
Vel, erum búnar að vinna fyrstu törneringuna okkar saman með stúlknaflokki. Ég held að þetta verði góður vetur hjá okkur, bæði í stúlknaflokki og meistaraflokki.

Natalía Jenný

Hvenær byrjaðir þú að æfa körfu?
Í 1. bekk, hef æft í níu ár og ég æfi líka fótbolta.

Hvaða stöðu spilar þú?
Ég er „point guard“ en ég er líka á kanti. Í fótboltanum er ég á kanti, miðju og vörn.

Hvernig er að æfa með systrum sínum?
Það er skemmtilegt en við erum líka með keppnisskap.

Er mikið keppnisskap á milli ykkar?
Ég vil vera betri en þær í leikjum og ekki leyfa þeim að skora en það er samt gott fyrir liðið að við skorum allar.

Hvernig undirbýrð þú þig fyrir leik?
Ég reyni að fara snemma að sofa, fæ mér hollan morgunmat, drekk mikið af vatni og síðan fyrir leik þá peppum við okkur upp inn í klefa með góðri tónlist.

Hver er mesta svefnpurkan?
Anna Margrét.

Hver er alltaf sein?
Anna Margrét er líka alltaf sein.

Farið þið stundum að rífast yfir einhverju ómerkilegu?
Já, sérstaklega um hvað við eigum að horfa á í sjónvarpinu.

Hvað er skemmtilegast við körfuboltann?
Allt, dripl æfingar og bara að spila körfu.

Hvernig er liðsheildin hjá ykkur hér í Grindavík?
Mjög góð, erum allar mjög jákvæðar og peppum hverja aðra upp.

Hver eru framtíðarplönin?
Ég ætla að reyna að fara til Bandaríkjanna að æfa körfu og skóla og kannski fara í læknisnám.

Eruð þið líkar?
Nei alls ekki.

Hvernig leggst veturinn í þig?
Hann leggst vel í mig, Angela er að koma aftur og þá verðum við kannski betri.

Thea Ólafía

Hvenær byrjaðir þú að æfa körfu?
Ég byrjaði í 1. bekk og æfi líka fótbolta.

Hvaða stöðu spilar þú?
Ég er fimma, fjarki og þristur sem er á kanti og í fótbolta er ég miðjumaður.

Hvernig er að æfa með systrum sínum?
Það er gaman en það getur verið skrýtið stundum. Við förum stundum heim til mömmu að kvarta yfir einhverju sem gerðist á æfingu en annars er þetta mjög gaman.

Er keppnisskap á milli ykkar?
Já það getur verið, en bara á æfingum. Það getur gerst í leik en samt eiginlega aldrei.

Hvernig undirbýrð þú þig fyrir leik?
Ég borða hollt og fer snemma að sofa deginum áður, hvíli mig vel á leikdag, hlusta svo á tónlist inn í klefa fyrir leik og hita síðan upp.

Hver er mesta svefnpurkan?
Anna Margrét.

Hver er alltaf sein?
Anna Margrét er líka alltaf sein.

Farið þið stundum að rífast yfir einhverju ómerkilegu?
Já, mjög oft. Það getur í raun og veru verið hvað sem er, sérstaklega ef við viljum ekki horfa á það sama í sjónvarpinu.

Hvað er skemmtilegast við körfuboltann?
Hvað það er gaman að spila.

Hvernig er liðsheildin hjá ykkur hér í Grindavík?
Mjög góð.

Hver eru framtíðarplönin?
Spila körfubolta áfram. Ég vil frekar halda áfram í körfunni heldur en fótboltanum og ætla að reyna að komast eins langt og ég get.

Eruð þið líkar?
Það segja margir að ég og Anna séum líkar en ekki ég og Natalía, svo er sagt að Natalía og Anna séu líkar. Við erum alls ekki líkar í skapi.

Hvernig leggst veturinn í þig?
Alveg ágætlega, mikið af leikjum og við erum að spila í körfu og fótbolta og það getur oft komið upp á að við erum að spila í báðum íþróttunum sömu helgi þannig það er erfitt að finna tíma. Stundum spilum við sjö leiki yfir sömu helgina. Þannig það er svolítið mikið álag á okkur núna.