Laugardagur 5. júlí 2014 kl. 13:14

VefTV: Sjáðu Airbus A350 lenda í hliðarvindi

Æfingar Airbus á Keflavíkurflugvelli

Ein af A350 tilraunavélum Airbus er nú stödd hér á landi þar sem hún gengst undir flugprófanir í hliðarvindi á Keflavíkurflugvelli. Þeir hjá Airbus heyrðu af einstakri veðráttunni á Íslandi og var því ákveðið að nýta sér veðuraðstæður sem flestir flugmenn vilja helst forðast undir venjulegum kringumstæðum. Frá þessu er greint á vefsíðunni allt um flug.is. Blaðamaður Víkurfrétta fékk að kíkja á æfingarnar en sjá má myndband af lendingunum hér að ofan.

Það er fyrsta tilraunavélin, MSN1, sem var send til Keflavíkur en hliðarvindsprófanir með Airbus A350 hafa einnig farið fram á Clemont-Ferrand/Auvergne flugvellinum í Frakklandi. Keflavíkurflugvöllur verður sífellt vinsælli til flugprófana á nýjum farþegaþotum en Dreamliner-vélarnar hafa verið m.a. prófaðar hér og lengri útgáfan, Boeing 787-9 kom hingað í apríl í sama tilgangi og það sama má segja um risaþotuna A380.