17.04.2013 13:51

VefTV: Sigmundur Davíð ræðir um stöðu Suðurnesja

- „Gefum Suðurnesjamönnum tækifæri á að nýta þá möguleika sem hér eru til staðar í stað þess að þvælast fyrir,“ segir formaður Framsóknarflokksins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, var á ferðinni á Suðurnesjum í gær og tók meðal annars þátt í opnum fundum bæði í Grindavík og Reykjanesbæ. Hann leit við hjá Víkurfréttum í gær ásamt Silju Dögg Gunnarsdóttur úr Reykjanesbæ sem skipar annað sætið lista Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi og Haraldi Einarssyni sem er í fjórða sæti listans.

Víkurfréttir ræddi við Sigmund Davíð af þessu tilefni. Flokkurinn hefur verið að mælast með mjög gott fylgi í skoðanakönnunum síðustu vikur en fylgi flokksins mælist nú yfir 30%. „Það er mikil stemmning í herbúðum Framsóknarmanna og okkur er allstaðar mjög vel tekið. Það er skemmtileg kosningabarátta þegar fólk er jákvætt, opið og vill heyra okkar skýringar,“ segir Sigmundur. Hvað ætlar Framsóknarflokkurinn að gera í málefnum Suðurnesja á næsta kjörtímabili?

„Staða Suðurnesja er ekki nógu góð, einmitt á þeim sviðum sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt mesta áherslu á; annars vegar staða heimilana og hins vegar atvinnumál. Ef fólk hefur ekki atvinnu - vel launað starf þá getur það ekki borgað af skuldum eða verið eðlilegur þátttakandi í samfélaginu. Menn hljóta því að leggja mikla áherslu á atvinnuuppbyggingu, þó ekki nema að gefa Suðurnesjamönnum tækifæri til að nýta þá möguleika sem hér eru til staðar í stað þess að þvælast fyrir. Ég tel núverandi ríkisstjórn ekki hafa staðið sig nóg vel í málefnum Suðurnesja á þessu kjörtímabili.“

Nánar má heyra í Sigmundi í viðtalinu hér að ofan.


Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, Jón Júlíus Karlsson, blaðamaður Víkurfrétta, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Haraldur Einarsson sem skipta annað og fjórða sæti Framsóknar í Suðurkjördæmi. VF-Mynd/Hilmar Bragi.