Miðvikudagur 22. október 2014 kl. 09:06

VefTV: Notagildi hússins margþætt

- Fjölskyldusetur opnar í Reykjanesbæ

Í Fjölskyldusetri Reykjanesbæjar eru fjórir þættir sem skipa stærstan sess í starfsemi þess; almenn foreldrafræðsla, sértæk námskeið, forvarnarmál og rannsóknir.

Að sögn Sigurðar Þorsteinssonar, yfirsálfræðings á fræðslusviði Reykjanesbæjar, og Maríu Gunnardóttur, forstöðumanns barnaverndar Reykjanesbæjar, er hið sögufræga hús á Skólaveginum, tilvalið fyrir starfssemi að þessu tagi. Þar hafi alla tíð verið innanhús fræðsla af einhverju tagi. „Með fjölskyldusetrinu erum við að sameina allt það góða sem er í boði í Reykjanesbæ. Þetta er fyrsta fræðasetur fyrir fjölskyldur á landinu og við erum ægilega stolt af því að þetta skuli vera hér í Reykjanesbæ,“ segir María. „Við fæðumst ekki sem fullkomnir foreldrar. Við þurfum fræðslu og þess vegna er svo mikilvægt að samfélagið vilji þiggja þessa þjónustu.

Sigurður segir að foreldrafræðsla byggist á því að gera foreldra betri í sínu hlutverki og styrkja þá. Að fólk sé öruggt og líði vel með það sem að er að gera. Notagildi hússins á að vera margþætt að sögn Sigurðar „Við erum að bjóða húsnæðið til annara stofnanna og félaga líka. Við viljum búa til sterka heild fyrir fjölskyldurnar hérna í bænum. Við viljum að allri þeir sem hafa eitthvað fram að færa hafi aðstöðu til þess að koma því áleiðis.

Í meðfylgjandi innslagi úr Sjónvarpi Víkurfrétta má kynna sér Fjölskyldusetur Reykjanesbæjar.