Miðvikudagur 1. janúar 2014 kl. 15:01

VefTV: Flugeldur kveikti tvívegis í sama þakinu

Allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Suðurnesja þurfti tvívegis að ráða niðurlögum elds í þaki atvinnuhúsnæðis við Bakkastíg í Njarðvík á gamlárskvöld. Fyrra útkallið kom rétt fyrir kl. 22 í gærkvöldi, eins og greint var frá hér á vf.is í gærkvöldi. Talið er að sá eldur hafi kveiknað út frá flugeldi sem fór í þak hússins.

Rétt fyrir miðnætti fór svo annar flugeldur í þak hússins og kveikti þar eld. Slökkviliðsmenn voru flestir komnir til baka á slökkvistöðina í Keflavík og voru aftur sendir á vettvang. Vel gekk að slökkva eldinn.

Tjón vegna þessara flugeldabruna í gærkvöldi er nokkuð. Talsverður reykur myndaðist en í atvinnuhúsnæðinu eru mörg fyrirtæki og þar voru jafnframt talsverð verðmæti í geymslu eins og húsbílar og fleira sem voru í rými sem fylltist af reyk.

Meðfylgjandi myndskeið tók Hilmar Bragi á vettvangi í gærkvöldi. Það má skoða í 1080P HD upplausn með því að breyta stillingum í spilaranum.