Fimmtudagur 7. febrúar 2013 kl. 11:17

Það er kominn tími á grindvískan þingmann

Grindvíkingurinn Páll Valur Björnsson leiðir lista Bjartar framtíðar í Suðurkjördæmi

Grindvíkingurinn Páll Valur Björnsson leiðir lista Bjartar framtíðar í Suðurkjördæmi. Páll Valur, sem eru fimmtugur að aldri og tveggja barna faðir, er menntaður kennari. Hann útskrifaðist sem grunnskólakennari frá menntavísindasviði Háskóla Íslands vorið 2011 og hefur starfað sem kennari síðan. Nú starfar hann í Fisktækniskóla Íslands í Grindavík. Páll Valur var kosinn í bæjarstjórn Grindavíkur fyrir Samfylkinguna vorið 2010. Hann hætti í bæjarstjórn í haust eftir að hafa ákveðið að ganga til liðs við Bjarta framtíð. Páll á ættir sínar að rekja frá Vopnafirði en hefur búið í Grindavík um árabil. Víkurfréttir ræddi við Pál Val nú þegar styttist í kosningar og leggur hann m.a. áherslu á að Grindvíkingar eignist alþingismann.

„Það leggst mjög vel í mig að leiða lista Bjartar framtíðar í Suðurkjördæmi. Þetta er mikil áskorun fyrir mig enda um að ræða stórt og mikið kjördæmi. Grindvíkingar hafa ekki átt marga þingmenn í gegnum tíðina. Síðasti þingmaður Grindvíkinga var Petrína Baldursdóttir árið 1994. Það er löngu kominn tími á að Grindvíkingar eignist þingmann og svo gæti hreinlega farið að þeir verði fleiri en einn. Það er einnig ánægjulegt að það stefni í að Suðurnesin eignist öfluga þingmannasveit sem okkur hefur tilfinnanlega skort á kjörtímabilinu sem er að líða,“ segir Páll Valur.

Hvers vegna ákvaðst þú að hella þér út í stjórnmál?
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á pólitík en fór ekki að taka þátt í henni með beinum hætti fyrr en fyrir nokkrum árum - í kjölfar hrunsins. Ég fylltist mikilli reiði með hvernig fyrir þjóðinni var komið og var raunar alveg brjálaður. Í kjölfarið á því þá bauð ég fram krafta mína fyrir Samfylkinguna og taldi að sá flokkur ætti best við mig. Ég fór í prófkjör fyrir Alþingiskosningarnar 2009 en fékk ekki brautargengi. Ég var kosinn í bæjarstjórn Grindavíkur fyrir Samfylkinguna 2010 og starfaði þar í tvo og hálft ár.

Þú hættir í Samfylkingunni í vetur og gekkst til liðs við Bjarta framtíð. Hvers vegna?
Það var engin sérstakur ágreiningur sem olli því að ég yfirgaf Samfylkinguna. Smátt og smátt þá fannst mér ég ekki lengur eiga samleið með flokknum og ákvað því að ganga úr honum. Þegar ég hætti í Samfylkingunni þá kom aldrei neitt annað til greina en að víkja úr bæjarstjórn. Ég hefði vissulega getað haldið áfram líkt og aðrir hafa gert. Ég hafði hins vegar engan áhuga á því. Fólkið kaus Samfylkinguna og á skilið að hafa sinn fulltrúa í sinni bæjarstjórn.
Róbert Marshall, sem er góður vinur minn, viðraði þessa hugmynd við mig fyrir nokkru að ganga til liðs við Bjarta framtíð. Það var ekki auðveld ákvörðun fyrir mig að hætta í Samfylkingunni. Ég mun standa eða falla með þeirri ákvörðun. Hugmyndanafræðin á bakvið Bjarta framtíð heillaði mig og ég finn að fólk vill fá eitthvað nýtt inn á Alþingi.

Hver er skýringin á þessari miklu ólgu sem verið hefur í sveitarstjórnarmálum í Grindavík undanfarin ár með tíðum meirihlutaskiptum?
Í Grindavík hefur verið allsráðandi mikil valda- og átakapólitík. Íslenska þjóðin er mjög samhent að mörgu leyti og stöndum saman þegar eitthvað bjátar á. Þegar það kemur hins vegar að pólitík þá virðist fjandinn hreinlega vera laus. Hér í Grindavík er gott fólk að vinna í bæjarstjórn og allir vilja gera sitt besta en af einhverjum ástæðum virðist fólk ekki geta unnið saman. Það var ævintýralegt að fylgjast með umræðunni hér í Grindavík á síðasta kjörtímabili. Samstarfið hefur hins vegar verið frábært á þessu kjörtímabili. Ég held að ég hafi aldrei lært jafn mikið á ævinni og á þeim tíma sem ég hef verið í bæjarstjórn. Þó ég hafi verið í minnihluta þá voru það mikil vonbrigði fyrir mig þegar Sjálfstæðisflokkurinn sleit meirihlutasamstarfinu við Framsóknarflokkinn. Ég vonaði svo sannarlega að okkur tækist að fara í gegnum kjörtímabil án þess að lenda í svona áföllum. Það reyndist hins vegar mjög auðvelt að mynda nýjan meirihluta.

Hvaða málefni brenna helst á þér?
Það eru skuldmál heimilanna - það er gríðarlega mikilvægt verkefni. Það er hins vegar mjög erfitt að koma með eina heildræna lausn til að leysa það vandamál. Björt framtíð er stofnuð til að reyna að breyta stjórnmálamenningunni í landinu. Núverandi stjórnmálamenning er ónýt. Það er lykilatriði að breyta þessari menningu í rétt horf. Það er algjör skortur á virðingu á milli kjörinna fulltrúa. Við þurfum að breyta Alþingi í samstarfsvettvang.

Finnur þú fyrir stuðningi?
Hver sem ég hef farið þá hef ég fundið fyrir miklum áhuga. Ég finn fyrir miklum meðbyr. Fólk hvetur mig áfram. Ég hef sýnt það í verkum mínum í Grindavík að ég er samkvæmur sjálfum mér. Fyrir mér er líka í lagi að skipta skoðun. Það er stór sigur fyrir hvern einasta einstakling að geta viðurkennt fyrir sjálfum sér að hann geti gert mistök. Ég hef gert mörg mistök en ég hef lært af þeim og það eru skilaboð sem ég vil senda inn í stjórnmálaumræðuna.

Hafa Suðurnesin orðið útundan á síðustu árum?
Já, það segir sig alveg sjálft. Við erum allsstaðar langt á eftir í öllum þeim skýrslum sem ég hef lesið undanfarin ár. Það er lykilatriði að eiga sterkan flokk þingmanna frá Suðurnesjum. Það eru gríðarleg sóknarfæri á þessu svæði og þá sérstaklega í ferðaþjónustunni. Á síðasta ári komu 600 þúsund ferðamenn í Bláa Lónið. Við erum anddyri landsins og þurfum að nýta okkur betur þá stöðu.

Ertu bjartsýnn á að komast á þing?
Ég er þokkalega bjartsýnn. Ég lærði það nú úr fótboltanum að maður fagnar ekki sigri fyrr en það er búið að flauta leikinn af. Ég vil láta gott af mér leiða í þessari kosningabaráttu og hef trú á því að fólkið í landinu vilji sjá ný andlit á Alþingi.