Fimmtudagur 11. maí 2017 kl. 20:00

Suðurnesjamagasín er hér! - í háskerpu

- Fimm innslög í þætti vikunnar

Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar í kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 20:00 og aftur kl. 22:00. Það er heldur betur fjölbreyttur þáttur hjá okkur þessa vikuna.
 
Við hefjum leikinn á Reykjanesmótinu í hjólreiðum þar sem tæplega 400 þátttakendur á öllum aldri tóku þátt og hjóluðu frá 32 og upp í 106 kílómetra um Reykjanesið. Keppnin hófst í Sandgerði og þangað skiluðu allir sér aftur í mark. Við vorum á staðnum.
 
Þrjátíu ára afmæli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var fagnað nýlega en stöðin var opnuð formlega 14. apríl 1987 að viðstöddum um þrjú þúsund gestum. Það er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar á þessum árum en nú er flugstöðin oft nefnt stóriðja Suðurnesjamanna enda lang stærsti vinnustaður svæðisins og einn sá stærsti á landinu. Suðurnesjamagasín var í afmælinu.
 
Kór Keflavíkurkirkju ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Nú er það Queen-messa sem sett verður upp í kirkjunni. Kórinn fékk Jónsa í Svörtum fötum með sér í lið. Við kíktum á æfingu og ræddum við Erlu sóknarprest um verkefnið.
 
Nú stendur yfir listahátíð barna í Reykjanesbæ. Börnin í bænum hafa skapað fjölmörg listaverk sem nú eru til sýnis í Listasafni Reykjanesbæjar. Þar má meðal annars sjá gíraffa og krókódíl. Við vorum við setningu hátíðarinnar.
 
Þá vorum við í 10 ára afmæli Keilis á Ásbrú í síðustu viku þar sem háskólarektor benti á að brýnt væri að fjölga nemendum í tæknigreinum á háskólastigi.
 
Þá endum við þáttinn á kórtónleikum hjá Karlakór Keflavíkur.
 
Þátt vikunnar má sjá í háskerpu í spilaranum hér að ofan.