Laugardagur 13. maí 2017 kl. 06:00

Suðarinn er matarpervert

Ferskasta vefsjónvarpið er matreiðsluþátturinn Soð

Það eru sjálfsagt fáir sjónvarpsþættir ferskari um þessar mundir en matreiðsluþátturinn Soð. Þátturinn er hugarfóstur listamannsins Kristins Guðmundssonar sem búsettur er í Belgíu. Keflvíkingurinn Kristinn tekur þáttinn upp í vinnustofu sinni og birtist áhorfendum á Youtube og Facebook. Það sem gerir þáttinn einstakan er hrátt útlit og einlægni Kristins, ásamt frumlegum uppskriftum. Hann tekur sjálfan sig alls ekki of alvarlega og leyfir mismælum og mistökum að lifa af klippiborðið.

Kristinn hrífst af því að elda utandyra og við hrörlegar aðstæður. Hann vantaði sumarvinnu og þannig fæddist hugmyndin að kokkaþætti sem sýndur yrði á netinu. „Svo er maður bara algjör matarpervert,“ segir listamaðurinn sem lærði að hluta til að elda á Pizza 67 á Hafnargötunni sem unglingur. Frá fermingaraldri langaði hann að verða kokkur en honum var ráðlagt að halda sig fjarri þeim geira sökum slæms vinnutíma. „Þannig að ég gerðist myndlistamaður, þar sem bæði launin og vinnutíminn eru slæm,“ segir Kristinn sem hefur verið að vinna í hjáverkum sem kokkur og þjónn á veitingastöðum í Amsterdam og Brussel þar sem hann hefur verið búsettur síðustu tíu árin og starfað sem myndlistamaður.

Soð eru frábrugðnir öðrum matreiðsluþáttum að mörgu leyti og Kristinn segist vera orðinn leiður á þessum hefðbundu formúlum sem farið er eftir í slíkum þáttum. Hann er ekki að lasta þá þætti en vill sjálfur fara aðra leið. „Maður klúðrar alltaf einhverju, jafnvel meistarakokkar. Ég læri mest á klúðrinu,“ viðurkennir hann en þau augnablik sem hann gleymir heitinu á einhverju eða klúðrar, eru yfirleitt þau skemmtilegustu í þáttum hans.

Mikil viðbrögð
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og rúmlega 2000 manns hafa líkað við Soð á Facebook þar sem mörg þúsund hafa horft á myndböndin. „Fólk er að taka þátt held ég. Fullt af ókunnugu fólki. Þá finnst manni að maður sé að gera eitthvað rétt.“

Aðstæður í myndvrinu eru frumstæðar. Þrjú „Kínaljós“ lýsa upp borðið þar sem allt verður til.

Réttirnir eru fjölbreyttir og örlítið öðruvísi en við Íslendingar eigum að venjast. Kristinn segir matarmenningu magnaða í Brussel og litar það þáttinn óneitanlega. „Flest af þessu er eitthvað sem ég hef gaman af því að elda og borða. Ég ákvað þó að byrja í þemanu Belgía og bjór,“ en bjór má finna í öllum uppskriftum hingað til.

Kristinn stefnir nú ekkert sérstaklega á að fara með þessa þætti í sjónvarp en hann segist vera tilbúinn að skoða allt ef tækifærið kæmi. Mikil vinna er við hvern þátt eða u.þ.b. tveir vinnudagar auk þess sem undirbúningur er talsverður.

Listakokkurinn er á því að það þurfi ekki mikið til þess að matreiða fram dýrindis veislu. „Það þarf ekki mikið til þess að elda vel. Þú þarft ekki mulinex vél eða Kitchenaid. Það þarf bara góðan hitagjafa, eina pönnu og einn pott. Góður hnífur er svo eitthvað sem er þess virði að fjárfesta í,“ segir Kristinn kátur en þættina má finna á Facebook og Youtube undir heitinu Soð.