Fimmtudagur 15. mars 2018 kl. 20:00

Stútfullt Suðurnesjamagasín

- kvikmyndagerð, bæjarlist, ferðaþjónusta og bókasafn í þætti vikunnar

Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar og vf.is kl. 20:00 í kvöld, fimmtudagskvöld. Þátturinn er stútfullur af áhugaverðu efni. Við byrjum þáttinn í 60 ára afmæli Bókasafns Reykjanesbæjar. Þaðan förum við til Grindavíkur og hittum Önnu Sigríði bæjarlistamann en nú stendur yfir Menningarvika í Grindavík. Frá Grindavík förum við til Keflavíkur og ræðum við Örvarpann Árna Þór kvikmyndagerðarmann. Í síðari hluta þáttarins tökum við svo púlsinn á ferðaþjónustunni á Suðurnesjum.
 
Nú stendur yfir Menningarvika í Grindavík. Við setningarathöfn vikunnar var Anna Sigríður Sigurjónsdóttir útnefnd bæjarlistamaður Grindavíkur. Hún er myndhöggvari en vinnur einnig með önnur form listsköpunar. Við hittum Önnu á sýningu sem hún vann með leikskólabörnum í Grindavík.
 
Árni Þór Guðjónsson er 15 ára kvikmyndagerðarmaður í Reykjanesbæ. Hann vann fyrstu verðlaun á örmyndahátíðinni Örvarpinu í síðustu viku. Við hittum Árna Þór og ræddum við hann um kvikmyndagerðina.
 
Ferðaþjónustan á Reykjanesi blómstrar um þessar mundir. Ferðamönnum er ennþá að fjölga þó svo dregið hafi úr fjölguninni. Vetrarfundur ferðaþjónustunnar á Reykjanesi var haldinn í þessari viku. Við tókum Gunnar Hörð Garðarsson verkefnisstjóra hjá Markaðsstofu Reykjaness tali um ferðaþjónustuna á svæðinu.
 
Suðurnesjamagasín má sjá í spilaranum hér að ofan í háskerpu.