Föstudagur 3. nóvember 2017 kl. 13:48

Stórt sameiginlegt verkefni fyrirtækja og sveitarfélaga

-Þurfum að horfa til lengri framtíðar, segir Guðjón Skúlason, nýr formaður Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi

„Það er mikilvægt að hafa ekki öll eggin í sömu körfu. Við þurfum fjölbreytni í atvinnulífinu og verðum að horfa til framtíðar, til nokkurra áratuga,“ segir Guðjón Skúlason, nýr formaður Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi, SAR en hann tók við af Guðmundi Péturssyni sem hefur verið formaður frá stofnun samtakanna árið 2010.

Guðmundur stóð að stofnun SAR skömmu eftir bankahrun þegar atvinnuleysi var hæst á landinu og ástandið mjög slæmt á Suðurnesjum.  „Aðilar á svæðinu vildu reyna allt til að laga stöðuna. Við stofnuðum samtökin í febrúar 2010 og héldum í kjölfarið tvo vel sótta borgarafundi til að koma á framfæri óviðunandi stöðu í atvinnulífinu til ríkisvaldsins. Það tókst ágætlega. Við héldum síðan fundi í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum og þá kom það vel í ljós að möguleikarnir á svæðinu voru miklir. Það fór að skila sér á næstu tveimur árum á eftir og nú vita allir hvernig staðan er á Reykjanesi.  Það er bullandi uppsveifla og ekki séð fyrir endann á henni,“ sagði Guðmundur.

Í dag eru tæplega 60 fyrirtæki aðilar að Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi. Fjölgunin í samtökunum hefur verið jöfn og þétt á síðustu árum. Guðjón segir að hlúa þurfi að góðum verkefnum á svæðinu. „Þetta er gerbreytt staða frá árunum fljótlega eftir hrun. Núna vantar vinnuafl og húsnæði og það mun setja svip sinn á stöðuna á næstunni. Við þurfum að vanda okkur í þeirri vinnu og þeim mörgu verkefnum sem liggja fyrir. Þau eru ekki síður hjá sveitarfélögunum sem þurfa að vinna út úr fjölguninni hjá fyrirtækjunum. Þetta er stórt sameiginlegt verkefni,“ sagði Guðjón.

Þeir félagar eru í viðtali í Suðurnesjamagasíni Sjónvarps Víkurfrétta í þætti vikunnar sem er frumsýndur á Hringbraut á fimmtudagskvöld kl. 20 og einnig aðgengilegur á vf.is.

Guðjón Skúlason tók við sem formaður SAR á aðalfundi samtakanna í sl. viku af Guðmundi Péturssyni sem hafði verið formaður frá árinu 2010. VF-mynd/pket.