Sunnudagur 1. nóvember 2015 kl. 06:00

Sokknu bátarnir sóttir

– Sjónvarp Víkurfrétta í björgunarleiðangri með Sigga kafara

Gamlir bátar sem hafa lokið sjósókn hafa viljað safnast upp í Njarðvíkurhöfn í gegnum árin. Þar hafa þeir legið bundnir við bryggju jafnvel árum saman áður en þeir fara til förgunar og endurvinnslu.

Það gerist svo annað slagið að eitt og annað gefur sig í þessum gömlu bátum með þeim afleiðingum að síga fer á ógæfuhliðina og skyndilega eru bátarnir sokknir við bryggju.

Það gerðist einmitt fyir hana Láru Magg ÍS sem hefur átt sitt fasta pláss í höfninni undanfarin ár. Einn góðan veðurdag í síðustu viku þá sökk hún á örskotsstundu þannig að ekki var við neitt ráðið.

Sigurður Stefánsson úr Sandgerði rekur Köfunarþjónustu Sigurðar ehf. sem hefur mikla reynslu af því að bjarga bátum sem hafa sokkið í höfnum víða um land. Sigurður tók að sér að koma Láru Magg ÍS á flot að nýju.

Eftir að skrokkurinn hafði verið þéttur til að koma í veg fyrir leka var smíðaður stokkur á lestarlúguna. Lauslegt drasl var fjarlægt úr lestinni til að koma í veg fyrir að dælur stífluðust og þá var byrjað að dæla úr bátnum.

Það gekk ekki alveg þrautalaust í fyrstu og rafmagnið lét illa. Loks komust svo dælurnar í gang og Lára Magg ÍS fór að fljóta að nýju.

Sjónvarp Víkurfrétta ræddi við Sigurð kafara og fékk hann til að útskýra verkefnið.