Fimmtudagur 25. október 2018 kl. 11:00

Slökkvistöð rís innan árs á Flugvöllum

Sjónvarp: Biðin loks á enda

Biðin hefur verið löng og ströng eftir nýrri slökkvistöð á Suðurnesjum en nú mun ný slík rísa við Flugvelli 29 í Reykjanesbæ. Á tuttugu árum hafa átta tillögur og ýmsar staðsetningar verið á teikniborðinu. „Þetta er langþráður draumur og það er ekki hægt að segja annað að það hafi verið legið vel og lengi yfir þessu,“ segir Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri í samtali við Víkurfréttir þegar samningur var undirritaður á dögunum. Áætlaður kostnaður við bygginguna er 730 milljónir.

Árið 1967 var núverandi húsnæði tekið í gagnið. Jón segir það barn síns tíma og löngu orðið tímabært að fara í hús sem uppfyllir allar þær kröfur sem gerðar eru til þessarar starfsemi í dag. „Húsið mun breyta öllu hvað varðar aðbúnað fyrir starfsfólk. Eins hvað varðar geymslu á tækjum og tólum. Til viðbótar verður þarna stjórnstöð almannavarna sem er til mikilla bóta. Betra húsnæði er ekki hægt að fá fyrir starfsemi af þessu tagi,“ segir slökkviliðsstjóri en mikið hefur breyst síðan árið 1988 þegar atvinnuslökkvilið var sett á laggirnar í Reykjanesbæ. Útköll voru þá um 900 en nú eru þau á fjórða þúsund.

Má ekki mikið út af bregða

Ístak er verktaki að húsinu og áætla þeir að húsið verið tilbúið innan árs. Jón telur það raunhæft enda sé um öfluga verktaka að ræða sem tekist hafa á við meira krefjandi og stærri verkefni. Aðspurður um hvort að slökkviliðið nái að anna öllum þeim útköllum í ört vaxandi samfélagi sem oft er sniðinn þröngur stakkur, segir Jón. „Við önnum öllum útköllum sem til okkar koma. Það geta komið tímar þar sem seinkun verður í útköllum. Við erum ekkert ofmönnuð ef við getum orðað það þannig. Okkur veitir ekki af auknum mannskap, þetta hefur sloppið til en það er enginn afgangur.“