Mánudagur 9. nóvember 2015 kl. 10:45

Skapa nýja ímynd fyrir íbúðasvæði Ásabyggðar

– Félagið Ásabyggð ehf. efndi til hugmyndasamkeppni

Félagið Ásabyggð ehf, sem áður hét Háskólavellir efndi til hugmyndasamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um breytt skipulag og nýtt heildaryfirbragð byggðar og bygginga á íbúðasvæði félagsins að Ásbrú í Reykjanesbæ. Íbúðasvæðið hefur hlotið nafnið Ásabyggð.

Í keppnislýsingu sagði að meginmarkmið keppninnar er að skapa nýja ímynd fyrir íbúðasvæðið sem byggir á einföldum en hugvitsamlegum aðgerðum sem beita má í skrefum til að ná settu marki. Ímyndin og yfirbragðið þarf að byggja á hugmyndafræði sem tekur á m.a. skipulagi svæðisins, umhverfis- og búsetugæðum, mannlífi, útliti og litavali bygginga, gróðri og skjólmyndun, merkingum, samgönguásum og hverju því sem þátttakendur telja að geti stutt við þá ímynd sem leitast er eftir.

Í keppnina bárust sex tillögur og voru þrjár þeirra verðlaunaðar. Fyrstu verðlaun voru 1800 þúsund krónur, önnur verðlaun voru 900 þúsund krónur og tillagan í þriðja sæti hlaut 500 þúsund krónur.

Tillagan sem fór með sigur af hólmi var unnin af A2F arkitektum, Baark og Landmótun. Dómnefnd var sammála um að tillaga þeirra gerði mest til að skapa sterka heildarmynd og ímynd fyrir svæðið með aðgerðum á bæði stórum og smáum skala. Hugmynd um grænt belti sem bindi svæðið saman og þjónustukjarna í miðju þess er sterk og eins hugmynd um þéttari byggð. Tillagan hefði þó verið bættari ef aðgerðum í smærri skala sem og útliti og litavali bygginga hefði verið gefinn meiri gaumur.

Tillögurnar eru til sýnis í aðalsal Keilis á Ásbrú.

Sjónvarp Víkurfrétta ræddi við Ingva Jónasson framkvæmdastjóra Ásabyggðar um hugmyndasamkeppnina og hvernig unnið verði með þær tillögur sem bárust.

Viðtalið má sjá hér að neðan.