Sunnudagur 1. maí 2016 kl. 00:00

Sjónvarp Víkurfrétta: Bók skilað eftir sjötíu ára lán

Bók sem tekin var að láni frá Lestrarfjelagi Keflavíkurhrepps árið 1943 var skilað til Bókasafns Reykjanesbæjar á dögunum. Að sögn Önnu Margrétar Ólafsdóttur, verkefnisstjóra hjá bókasafninu, er þetta lengsta lán í sögu safnsins. Bókin fannst á dögunum við flutninga. „Bókin hefur örugglega lent einhvers staðar á milli. Það hefur greinilega verið gengið vel frá henni. Svona getur gerst og við kippum okkur ekkert upp við það,“ segir Anna Margrét. Fjallað var um bókina í Sjónvarpi Víkurfrétta og má sjá innslagið hérna fyrir neðan.

Bókin heitir Ófríða stúlkan og er eftir Anne-Marie Selinko. Á bókarkápu er henni lýst sem „nútíma skáldsögu frá Vínarborg.“ Ívar Guðmundsson þýddi bókina á íslensku. Bókin hafði varðveist vel þann tíma sem hún var í útláni. Bókin fjallar um stúlku sem líður eins og hún sé hvorki fríð né gáfuð og er í óvissu með það hvað hún eigi að taka sér fyrir hendur í lífinu. Hún kynnist frægum leikara og fella þau hugi saman. Anna segir söguþráðinn gott dæmi um það hvernig tíðarandinn hafi breyst. „Við fögnum því sennilega flestar en það er þó alltaf gaman að finna gamlar gersemar sem þessa,“ segir hún.

Aftast í bókinni eru stimplar með dagsetningum útlána og sést þar að bókin var fyrst lánuð út árið 1940 og naut mikilla vinsælda.

Bókin er nú til sýnis í Bókasafni Reykjanesbæjar. Með tilkomu tækninnar hefur safnið fleiri tækifæri en áður fyrr til að láta lestrarhesta vita að komið sé að skiladegi og fær fólk nú senda tölvupósta með áminningu.