Laugardagur 27. maí 2017 kl. 06:00

Sjónvarp VF: Sjáðu nýju Saga Lounge setustofuna og Vatnajökul

Ný og stórglæsileg Saga Lounge setustofa Icelandair var opnuð sl. fimmtudag. Nýja setustofan er á þriðju hæð í suður-byggingu flugstöðvarinnar og er 1350 fermetrar að flatarmáli, um tvöfalt stærri en Saga Lounge stofan á neðstu hæð.

Hönnuðir eru þeir Eggert Ketilsson og Stígur Steinþórsson. Íslensk náttúra og menning eru í hávegum höfð í nýju setustofunni þar sem áhersla er lögð á þægindi, gæði og gestrisni. Þaðan er líka stórbrotið útsýni, nærri því allan hringinn yfir Reykjanes, Faxaflóa og allt vestur til Snæfellsjökuls á heiðskírum degi. Ekki er ólíklegt að fleiri muni nú gleyma fluginu sínu því hægt er að eiga góðar stundir í skemmtilegum legubekkjum og hægindastólum eða við arineld.

Suðurnesjamenn eiga mest allan heiðurinn af sjálfri uppsetninga- og smíðavinnunni í nýju stofunni. Þar fóru fremstir starfsmenn og eigendur Trésmíðaverkstæðis Stefáns og Ara, en þeir bræður hafa komið að vinnu við síðustu fjórar setustofur Icelandair í flugstöðinni.
Yfirmaður nýju setustofunnar er Jenný Waltersdóttir og hún sagðist afar ánægð með útkomuna. „Þetta er örugglega ein glæsilegasta setustofa flugstöðva í heiminum,“ sagði Jenný og brosti sínu blíðasta en hún sagði að fjögur önnur flugfélög myndu fá aðgang að setustofu Icelandair.

Birgir Holm, forstjóri Icelandair, og Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar, vígðu nýju setustofuna og lofuðu þeir báðir vinnuna við hönnun og uppsetningu stofunnar.

Hér má sjá videoinnslag Sjónvarps Víkurfrétta frá nýju setustofunni.