Mánudagur 28. desember 2015 kl. 08:38

Sjónvarp: Valgeirsbakarí verður ekki Starbucks á morgun

- segir Jón Arilíus bakarameistari

Jón Arilíus, bakarameistari úr Kökulist í Hafnarfirði, hefur keypt rekstur og fasteign Valgeirsbakarís í Njarðvík. Valgeir Þorláksson bakarameistari lætur formlega af störfum í dag eftir rúmlega 45 ára starf. Jón þekkir vel til í Reykjanesbæ. Konan hans, Elín María Nielsen, er úr Keflavík. Þá bjó hann í Reykjanesbæ í hálft ár fyrir átta árum síðan. Þau Jón og Elín María eiga sex börn en ekki hefur verið tekin um það ákvörðun á heimilinu hvort fjölskyldan flytji frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar.

- Hvað kemur til að menn koma til Njarðvíkur og kaupa heilt bakarí?
„Valgeirsbakarí er stórkostleg eining. Konan mín er einnig héðan þannig að það kom eiginlega ekkert annað til greina“.

- Þú hefur verið í svona rekstri í Hafnarfirði lengi.
„Ég hef verið með bakaríið Kökulist í Hafnarfirði í nítján ár og þetta er flott útrás“.

- Og er skemmtilegt að koma til Njarðvíkur og taka yfir 45 ára gamalt bakarí?
„Þetta er bara einstakt. Stóru áhyggjurnar mínar í upphafi voru hvort mér yrði tekið vel. Strax hafa tugir manna tekið í höndina á mér og óskað mér velfarnaðar þannig að það er stórkostlegt að koma hingað“.

- Hér er bakaríið fullt af gúmmelaði sem hefur verið í boði frá degi eitt. Hvað ætlar þú að gera?
„Það er búið að leggja mér línurnar. Fléttubrauðin mega ekki breytast, snúðarnir verða að vera eins og líka kringlurnar. Það er ekki spurning að þetta verður áfram svona. Ég keypti Valgeirsbakarí og ég er ekki að fara að breyta þessu í Starbucks-stað á morgun. Ég ætla að byggja á því sem fyrir er. Þetta er flottur rekstur, flott bakarí og geggjaðar vörur. Það er verið að keyra á áratuga gömlum uppskriftum og grunnhráefnum. Þetta eru frábærir sökklar að byggja á. Með hækkandi sól ætlum við að opna hérna kaffiaðstöðu í hinum helmingnum af framhliðinni. Við erum full af hugmyndum og mjög spennt og þessar stórkostlegu móttökur eru ómetanlegar. Ég held að ég verði að setjast niður milli jóla og nýárs og skrifa 15.000 þakkarkveðjur til bæjarbúa fyrir hlýhug og velvilja“.

- Það hefur ekki verið beygur í þér að koma til Reykjanesbæjar þar sem umræðan um bæinn hefur verið misjöfn að undanförnu?
„Ég bjó hérna í hálft ár fyrir átta árum síðan og ég hef vitað af Valgeirsbakaríi alla tíð. Síðan ég bjó hérna hefur miðbær Reykjanesbæjar alltaf verið að færast nær bakaríinu. Ég bý í dag syðst í Hafnarfirði og á 20 mínútna gæðastund í bílnum á morgnanna á leið til vinnu og aftur síðdegis á bakaleiðinni. Við erum að taka við grónu fyrirtæki og miklum hefðum og þetta leggst vel í mig“.

- Ætlar þú að vera hér að baka eða áfram í bakaríinu í Hafnarfirði?
„Við flytjum alla framleiðslu fyrir Kökulist hingað og komum með talsvert af störfum með okkur. Þetta er bara mjög jákvætt og fín aðstaða hérna. Svo koma alltaf nýjar áherslur með nýju fólki og við höfum bæði verið sterk í veisluþjónustu og hátíðartertum og munum leggja áherslu á það hérna sem og einnig heilsubrauð sem hafa verið vinsæl hjá okkur í Hafnarfirði. Við verðum með brot af því besta hérna hjá okkur í Valgeirsbakaríi,“ segir Jón Arelíus bakarameistari í viðtali við Víkurfréttir.