Föstudagur 23. desember 2016 kl. 11:11

Sjónvarp: Stórhuga í bókaútgáfu

Keflvíkingar tilnefndir til bókmenntaverðlauna

Keflvíkingarnir Svavar Steinarr Guðmundsson og Þorsteinn Surmeli reka ásamt öðrum bókaútgáfuna Lesstofuna sem gaf út í haust bókina Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson.
 
„Bókin hefur fengið glimrandi viðtökur,“ segir Þorsteinn en hún var nýverið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. „Egill Helgason sagði til að mynda að verkið væri ein af stórtíðindum þessarar bókavertíðar og Þorgeir Tryggvason skrifar í ritdómi að um sé að ræða ævisögu ársins.“
 
„Þetta er stórmerkilegt verk og í rauninni afrakstur fimm ára markvissrar rannsóknarvinnu og skrifa,“ segir Svavar og bætir við að Viðar hafi verið með Jón á heilanum í um þrjátíu ár. Um er að ræða ævisögu Jóns lærða Guðmundssonar (1574–1658), en hann var sannkallaður þúsundþjalasmiður; skáld, fræðimaður, læknir, náttúrufræðingur, listaskrifari, bóndi, sjómaður, málari, tannsmiður, sjálflærður andófsmaður og fyrstur til að skrifa rit á íslensku um náttúru Íslands.
 
Svavar segir að í bókinni sé lífshlaup Jóns rakið ítarlega, „en hann hraktist meðal annars um allt land fyrir afhjúpandi skrif sín um Baskavígin, sannkallaðan smánarblett á sögu Íslands. Hann var einnig dæmdur fyrir að hafa rekið galdraskóla og ferðaðist hann til Kaupmannahafnar til að fá þeim útlegðardómi hnekkt en hafði ekki erindi sem erfiði.“ Áður en Jón fór utan kom hann meðal annars við á Suðurnesjum og dvaldi í einhvern tíma í Hvalsnesi, um áratug áður en Hallgrímur Pétursson fékk prestakallið þar. „Það eru ekki margar heimildir um ferðir hans en hann var eitthvað hér, í Grindavík og á Bessastöðum áður en hann var dæmdur í útlegð,“ bætir Svavar við.
 
Þorsteinn segir Viðar einnig leitast við að varpa ljósi á heimsmynd og hugmyndasögu 17. aldar, „en með því að lýsa náttúrusýn 17. aldar manna minnir Viðar á þá náttúruvá sem steðjar að okkur nú á dögum. Við verðum sífellt að minna okkur á að við erum ekki þau einu sem höfum gengið þessa jörð, og ekki þau síðustu heldur.“
 
„Þetta er jólabókin í ár!“ segja þeir félagar í kór áður en þeir halda út í niðdimman desember, klifjaðir bókum sem þeir hafa vart undan að dreifa í bókabúðir, þeirra á meðal Eymundsson í Reykjanesbæ.