10.03.2018 07:00

Sjónvarp: Mystery boy verður alltaf hluti af mér

- Skrifaði söngleik í edrúmennsku

Æfingar eru að hefjast hjá Leikfélagi Keflavíkur á söngleiknum Mystery boy eftir tónlistarmanninn Smára Guðmundsson sem er að hluta byggður á edrúmennsku hans eftir meðferð þegar kvíðinn var farinn að taka völdin.

Við hittum Smára á fyrsta samlestri í liðinni viku þar sem verkefnið var kynnt og fengum að vita meira um Mystery boy.

„Þetta er sett upp sem kómísk ástarsaga um ungt fólk sem í leit sinni af sannleikanum og ástinni lendir í furðulegu ferðalagi og óvæntum ævintýrum. En þrátt fyrir að viðfangsefnið sé alvarlegt er mikilvægt að koma auga á spaugilegu hliðarnar og hafa gaman.”

Lífið auðveldara edrú

Að sögn Smára er lífið auðveldara edrú: „Sveiflunar eru minni og ég er miklu stöðugri, glaðari og hamingjusamari. Kvíðinn sem fylgdi drykkjunni er horfinn og það er ólýsanlega góð tilfinning, kvíðinn er nefnilega lúmskur djöfull. Kvíði er eðlileg tilfinning en samfélagið okkar er að breytast svo hratt að stundum týnumst við bara í þessum hraða og látum. Líkaminn veit ekki hvernig hann á að bregðast við öllu áreitinu og fer á yfirsnúning, fyllist af kvíða og ótta. Í edrúmennskunni er auðveldara að tækla þessa hluti og fjallar söngleikurinn lauslega um það og mína dvöl á meðferðarheimilum. Þar var ég að berjast við þessar tilfinningar ásamt alkahólismanum.”

Við víbrum öll

Smári er enginn nýgræðingur í tónlist en hann er þekktur sem einn af systkinunum í Klassart. Þá hefur hann leikið með hljómsveitum eins og Tommygun Preachers, Lifun, Flugan, Sjálfumglöðu Riddararnir, Grammið, Farandskuggar og fleirum.

Aðspurður segist hann ekki geta útskýrt þennan tónlistaráhuga þeirra en mikil tónlist hafi verið á heimilinu.
„Uppeldið hlýtur að eiga stóran þátt í því. Það var til fullt af plötum heima sem hægt var að grúska í og við nýttum okkur það. Við víbrum öll og það sem víbrar gefur frá sér hljóð þannig að í grunninn erum við öll tónlist. Við systkinin vorum kannski heppin að kynnast þessum víbring snemma,“ segir Smári leyndardómsfullur.

Hugmyndin að söngleiknum kviknaði stuttu eftir að Smári kom úr meðferð frá Staðarfelli á Fellsströnd í Dölunum í desember 2016.

Ætlaði að skilja við Mystery boy

„Upprunalega var hugmyndin að vera með kveðjutónleika fyrir Mystery Boy sem hefur verið mitt hliðarsjálf lengi. Hann fæddist fyrir 18 árum og hefur fylgt mér í gegnum súrt og sætt. Ég var að byrja nýjan kafla í mínu lífi eftir meðferð og ætlaði að skilja við Mystery Boy. Í ferlinu komst ég að því að Mystery Boy verður alltaf hluti af mér og ég þarf að hjálpa honum frekar en að gleyma honum. Þá kviknaði sú hugmynd að gera þetta að söngleik.”

Smári hefur lært upptökustjórn en hafði ekki mikla reynslu af söngleikjum þegar hugmyndin kviknaði en áhuginn jókst eftir því verkinu miðaði áfram.

„Ég fór af stað í þetta verkefni með litla sem enga vitneskju í farteskinu nema þá reynslu sem ég hef úr tónlistinni. Því lengra sem ég fór inn í verkið fór áhuginn minn fyrir söngleikjum og handritagerð að aukast. Ég fór að hafa þráhyggju fyrir þeim sem ég tel vera af hinu góða því ef á að gera hluti vel þarf að fá kafa djúpt í viðfangsefnið. Ég sökkti mér í allar bækur um söngleiki og handritagerð sem ég komst yfir og sótti einnig námskeið. Við erum búin að ráða til okkar hann Stefán Örn Gunnlaugsson (Íkorni) sem sérlegan tónlistarráðgjafa en hann hefur m.a. sett upp söngleik á Broadway. Með honum kemur inn gífurleg reynsla og erum við afar þakklát að fá hann inn í verkefnið. Auk Stefáns nýt ég krafta Ástþórs Sindra Baldurssonar við að setja upp tónlistina með mér. Fleiri hafa komið nálægt tónlistinni og má þar nefna Björgvin Ívar bróðir Ástþórs og stórfrænda þeirra Gunnar Skjöld. Fríða systir er svo að aðstoða við söngtextana. Þarna er saman komið stórskotalið af geggjuðu fólki”, segir Smári og hlær.

Það er hægt að komast langt á eldmóðnum

Leikfélagið tók strax vel í hugmyndina þótt hún hafi ekki verið fullmótuð þegar Smári hitti þau fyrst.
„Þau hvöttu mig til að halda áfram sem gaf mér aukinn styrk og kraft til að klára verkið og er ég þeim mjög þakklátur fyrir það. Ætli þau hafi ekki séð eldmóðinn í mér, það er oft hægt að komast langt á honum einum og sér. Aðstaðan sem Leikfélagið hefur sett upp hér í Keflavík er frábær og er haldið vel utan um allt. Ég mjög heppinn að hafa fengið þau með mér í þetta verkefni. “

Leikfélagið hefur ráðið Jóel Sæmundsson til að leikstýra söngleiknum en æfingar munu hefjast á næstunni þegar valið hefur verið í hlutverk en stefnt er að því að frumsýna í apríl.

En hverju mega áhorfendur eiga von á?

Þetta verkefni gefur mér mikinn styrk, styrk til að halda áfram á edrúbrautinni og gefa gott fordæmi þar. Mér líður vel núna og mig langar að smita þeirri gleði í hjarta áhorfandans og það er megintilgangurinn með söngleiknum. Áhorfandinn má eiga von á miklu stuði, eilítilli dulúð og mörgum furðulegum fígúrum. Svo er tónlistin öll samin á gömlum skemmtara sem gefur söngleiknum sérstakan og skemmtilegan hljóm.