Laugardagur 17. nóvember 2018 kl. 08:00

Sjónvarp: Mikilvægt að auka fræðslu og hefja hana í grunnskóla

Málþing Ungmennaráðs Grindavíkur um öryggi í umferðinni

„Málþingið heppnaðist mjög vel. Við vonum að það verði hlustað á okkur, ekki bara í framtíðinni heldur líka núna. Við teljum að fræðsla um umferðarmál til ungmenna sem hefjist í grunnskóla sé mikilvæg og nauðsynleg,“ sagði Karin Óla Eiríksdóttir, formaður Ungmennaráðs Grindavíkur en það stóð fyrir málþingi um umferðaröryggi 8.-9. nóv. sl. í Grindavík.
 
Meðal gesta á þinginu var Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og Þórólfur Árnason, framkvæmdastjóri Samgöngustofu.
 
Karín Óla segir að það hafi verið mikil umræða í Ungmennaráði Grindavíkur í fyrra um að halda umferðarþing enda þurfi Grindvíkingar að aka einn hættulegasta veg landsins. „Við vildum fá fleiri til að ræða þetta. Ég fór svo á ráðstefnu í útlöndum um ungt fólk og lýðræði og þar var mér bent á að það væri hægt að sækja um svokallaðan Erasmus styrk fyrir málþingið sem ég og gerði. Við fengum síðan veglega styrk og fórum svo á fullt í haust að undirbúa það og bjóða öðrum ungmennum á það.“
 
Vegleg dagskrá var á málþinginu. Haldnar voru málstofur og haldin voru erindi frá mörgum aðilum eins og t.d. Vegagerðinni, FÍB og Umferðarstofu og þá var horft gagnrýnum augum á Samgönguáætlun og á mögulegar sviðsmyndir framtíðarinnar þegar kemur að ökutækjum og umferðaröryggi.
 
En krakkarnir gerðu sér líka glaðan dag með skemmtikvöldi í Grindavík og svo gisti allur hópurinn á hóteli í bæjarfélaginu.
 
„Þetta var mjög skemmtilegt, fróðlegt og gagnlegt. Við unga fólkið fylgjumst með í lífinu og höfum skoðanir og viljum að það sé hlustað á okkur. Ekki bara þegar við verðum eldri,“ sagði Karín Óla.

 

Karín Óla Eiríksdóttir, formaður Ungmennaráðs Grindavíkur.


Frá umferðarþingi ungmenna í Grindavík. VF-myndir/pket.