Laugardagur 19. nóvember 2016 kl. 07:00

Sjónvarp: Mér finnst gaman að vera úti um allt

- segir Arnór B. Vilbergsson, handhafi Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar

Arnór B. Vilbergsson hlaut menningarverðlauna Reykjanesbæjar fyrir árið 2016 en þau voru afhent við hátíðlega athöfn í Duus Safnahúsum síðasta föstudag. Verðlaunin eru veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta sinn sem Súlan var afhent. Arnór B. Vilbergsson hlaut verðlaunin fyrir framlag sitt til tónlistarlífs í Reykjanesbæ. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabetu Ásberg.

Til hamingju með menningarverðlaun Reykjanesbæjar. Þetta eru óskarsverðlaunin í þessum flokki. Hvernig er tilfinningin?

Þetta er bara dásamlegt, voða skemmtilegt, ég get ekki sagt annað. Að fá klapp á bakið. Manni hlýnar um hjartarætur.

Allar stundirnar sem þú ert búinn að eyða í þetta, bæði í vinnunni þinni og fyrir utan vinnuna sem ég veit að þú gerir. Þú getur þá sagt við sjálfan þig: „já, þetta var þess virði.“

Ég sem betur fer vinn við það sem ég hef gríðarlega ástríðu fyrir, þannig að maður er einhvern veginn alltaf svolítið vakinn og sofinn yfir þessu og ef maður er ekki í vinnunni, þá er maður að hugsa um hana, útsetja eða pæla í einhverjum kórum eða verkefnum. Það er alltaf mikið að gera og það er svo gaman að skapa. Það er alltaf gaman að búa til og þannig verður þessi blessaða menning til, þegar einhver skapar eitthvað og býr til og einhver nennir að koma að horfa á eða hlusta á. Það er nú bara það sem þetta snýst um.

Í fáum orðum, hver eru verkefni þín daginn út og daginn inn?

Ég mæti í vinnuna um 8-9 leytið, þegar ég er búinn að fara út að hlaupa með hundinn, eða hundurinn búinn að fara út að hlaupa með mig. Ég er fram eftir degi í Keflavíkurkirkju og þá er ég í ýmsum verkefnum. Ég sit gjarnan við hljóðfærið að æfa Bach og eitthvað fleira, undirbý mig fyrir messurnar og er í samskiptum við kórana mína. Hér erum við með þrjá kóra sem æfa í kirkjunni, kór Keflavíkurkirkju sem kirkjan á eiginlega, Eldey, kór eldri borgara og Vox Felix. Unga fólkið er í honum og nú þarf ég að passa mig að segja ekki barnakórinn. Fólkið sem er í honum á orðið börn sem eru fermd.



Þannig að kórarnir eru gríðarlega sterkir hérna. Þeir tengjast kirkjunni beint og óbeint.

Algjörlega. Ég held að þetta séu svona um það bil 150 manns sem ég er með í þessum þremur kórum. Vox Felix, sem er samstarfsverkefni allra kirkna hér á Suðurnesjum, er frábært framtak. Sjö sóknir á Suðurnesjum standa að honum og hann er orðinn tæplega þrjátíu manns. Ég held ég sé með 8 eða 9 stráka í þessum hóp. Maður er bara svo stoltur af því að þau nenni að vera með manni í þessu vafstri. Þá hlýtur þetta að vera skemmtilegt og maður hlýtur að vera að gera eitthvað gott.

Þú ert organisti, spilar í messum, jarðarförum og ert svo með kórana. Svo ertu í menningunni þar fyrir utan, áhugamenningunni getum við sagt, í öðrum störfum. Segðu okkur aðeins frá því helsta.

Það eru þessi hliðarverkefni. Sem betur fer stendur að mér fólk sem leitar oft til mín að vera með þeim í einhverjum verkefnum, eins og Dagný Gísladóttir gerði með Söngvaskáld á Suðurnesjum. Það er búið að vera ótrúlega skemmtilegt verkefni. Við vorum þrjú að vinna það, ég, Elmar Þór söngvari og Dagný Gísladóttir sögumanneskja. Við veljum okkur söngvaskáld af Suðurnesjum sem við tökum fyrir, veljum þrjá mánuði á vormánuðum í það, febrúar, mars og apríl. Svo er það hitt verkefnið, Hjólbörutónleikarnir á Ljósanótt. Það er nú pínulítið spontant, bæjarstórinn er með okkur í því og Elmar Þór. Það er rosalega skemmtilegt.

Svo hefurðu verið einn af lykilmönnum í tónlistarverkefnunum „Með blik í auga“, sem er eitt stærsta tónlistarverkefnið á Suðurnesjum ár hvert.

Blikið er nú eiginlega drottningin í þessu öllu saman. Ég tók það eiginlega að mér bara um leið og ég kom hingað. Það byrjaði með svolítið öðruvísi sniði, þá vorum við meira í klassíkinni. Jóhann Smári Sævarsson og ég vorum saman í því. Svo kom Kristján Jóhannsson að máli við mig hvort það væri ekki sniðugt að vera með þema. Við prófuðum það og það heppnaðist vel. Svo er þetta bara búið að vinda upp á sig. Við erum búin að vera að þessu núna í sjö ár, með þemaverkefni. Við ætluðum að gera þetta þrisvar, taka áratugina. Svo er náttúrulega Keflavíkur Kanaútvarpið búið að vera, gærur glimmer og gaddavír, lög unga fólksins og nú síðast kántrýið.. Það er rosalega gaman að búa til svona. Við reynum að fá fólk héðan af svæðinu en þrjú síðustu ár erum við búin að sækja út fyrir svæðið og flytja inn þessar stóru stjörnur. En spilararnir eru allflestir héðan og við sem gerum allt í kringum þetta. Þetta er líka til þess að fá annan vinkil á þetta. Við að kynnast þeim, þau að kynnast okkur og þau að sjá að við getum þetta alveg hér á Suðurnesjum, verið með stórar sýningar eins og er gert í Reykjavík. Við erum voða stolt af þessu.

Er munur á tónlistarlífinu hér eða þar sem þú lærðir, í Akureyrarkirkju?

Ég var að spila mikið fyrir norðan og lærði þar, í Akureyrarkirkju. Útfarir þar eru til dæmis allt öðruvísi en útfarir hér. Hér er beðið um Rúnna Júl, Bjögga og Villa Vill. Auðvitað er þetta líka þar, en hér er meira um að fólk biðji um ‘Heyr mína bæn’ með Ellý (Vilhjálms) í forspil en fyrir norðan er mikið beðið um Ave Maria og þessi klassísku lög. Kirkjan hér er opin fyrir þessu svo lengi sem við gerum þetta af fagmennsku, smekklega og af virðingu. Þá verður músíkin alltaf ofsalega hátíðleg sem við gerum hérna.

Þá höfum við verið með þessar messur, Jesus Christ Superstar, sem vakti gríðarlega lukku og U2 messu þar á undan. Liðið er alveg að fíla þetta. Nú stendur til að vera með Queen messu á vormánuðum í tilefni Lútersársins. Jónsi í Svörtum fötum ætlar að koma og syngja með okkur. Davíð Þór Jónsson er að semja textana fyrir okkur. Allt tekið úr fjallræðu Jesú Krists og sett í Queen lögin þannig að þetta verður allt á íslensku, búið til heilsteypt verk úr því. Ég er bara forvitinn að vita hvernig þetta kemur út. Ég hlakka mikið til.



Segðu okkur aðeins frá þinni menntun. Við Suðurnesjamenn teljum okkur eiga þig þótt þú hafir verið fyrstu árin í Reykjavík. En hvenær fórstu til Akureyrar?

Ég fór þangað 24 ára, árið 2000, og kom til baka 2008. Kláraði kantorsnámð mitt þar, lærði hjá Birni Steinari Sólbergssyni. Ég var svolítið lengi að læra, var kominn ungur með fjölskyldu og var í þremur vinnum með náminu. En sem betur fer sparkaði Björn Steinar í mig og sagði: „Jæja Arnór minn, er ekki kominn tími til að þú haldir tónleikana þína?“ Við kláruðum það árið 2007.

Ætlaðir þú að fara þessa leið þegar þú varst yngri?

Nei, nei, ég vissi ekki hvað kirkjuorgel var og ég vissi ekki að það þyrfti að spila með löppunum. Ég byrjaði 10 ára að læra hjá henni Ragnheiði Skúladóttur á píanó í Tónlistarskólanum í Keflavík og hætti 16 ára því þá fannst mér rosalega kúl að vera í hljómsveit, hafði ekki alveg tíma fyrir þetta. Svo fór fólk að spyrja mig „hættirðu í tónlistarskólanum?“ Ef það er eitthvað sem ég sé eftir í lífinu, þá er það að hafa hætt í tónlistarskólanum. Svona ári síðar fer ég að hugsa hvort það sé ekki bara sniðugt að fara að læra á orgel, af því ég var að spila á hammond orgel í hljómsveit eins og John Lord gerði. Ég fór í tónlistarskólann, fékk grænt ljós á það að fara að læra á orgel og þá var Steinar Guðmundsson að kenna á hljóðfærið. Ég fór til hans í Ytri-Njarðvíkurkikju, alveg blautur á bakvið eyrun, hann er að spila eitthvað og ég sé lappirnar hreyfast og hugsa með mér hvað maðurinn sé eiginlega að gera. Svo settist ég og prufaði og þá var ekki aftur snúið, mér fannst þetta æði! Enda er þetta bara heill heimur, að vera með svona drottningar í höndunum. Þessi drottning hér (bendir á orgelið í Keflavíkurkirkju) fær bráðum endurbætur og það verður blásið lífi í hana. Við ætlum að nota það góða úr henni og losa okkur við það slæma.

Við erum að tala um orgelsjóð Keflavíkurkirkju?

Já, og það mál er sem betur fer að lenda þannig að við getum farið að vinna ötullega að þessu. Við erum komin með hugmynd að þessu sem allir eru sáttir við og vonandi verður það bráðum opinberað, hvernig við ætlum að gera þetta. Meiningin er að nota það sem er gott í þessu hljóðfæri og þar af leiðandi erum við að spara okkur mikinn pening.



Það kostar mikla peninga að kaupa nýtt orgel.

Já, það kostar 50 milljónir að kaupa nýtt orgel hér inn. Ég lifi það ekkert. En menn eru að horfa á kannski fimm til sex ár, kannski tvö, þrjú. Ég er mjög bjartsýnn maður og held að bæjarbúar vilji þetta enda orðið tímabært.

Hvað er þá framundan hjá menningarverðlaunahafanum, organistanum og kórstjóranum?

Ég sagði nýlega við konuna mína að það væri stutt í páskana. Hún sagði „hvað meinarðu? Jólin eru fyrst.“ Jólavertíðin er náttúrulega að byrja og það er fullt að gera þar. Kirkjukórinn stendur vaktina hérna öll jólin. Hópur sem ég er með á mínum snærum sem heita Kóngarnir syngja líka hérna um jólin. Það er karlakvartett. Vox Felix og Eldey, kór eldri borgara, syngur á aðventukvöldi. Vox Felix er að fara að syngja með kvennakór Suðurnesja, þannig við erum út um allt. Á hverjum degi eitthvað. Bara skemmtilegt.

Ertu einhvern tímann heima?

Já, á morgnanna með hundinum. Nei, (hlær) ég segi svona, ég hef náð að koma þessu fyrir þannig að ég þarf ekki að vera öll kvöld í vinnunni. Kirkjukórinn til dæmis æfir frá 6 til 8. Þannig að maður er kominn heim og nær Matlock í sjónvarpinu og einhverju góðu stöffi.

Það hefur verið eftir því tekið hve gríðarlega gott starf er unnið í Keflavíkurkirkju, mikill áhugi, góð þátttaka og mikið líf.

Það var alltaf talað um það þegar maður var fyrir norðan að það væri örugglega hvergi eins öflugt kórastarf eins og þar. En mér finnst það jafn öflugt hér og þar. Það er ótrúlega blómlegt líf hérna. Það eru popparar í öðrum hverjum bílskúr og við getum nefnt Valdimar, Fríðu Dís og Klassart, það er endalaus gerjun. Ég er oft að vinna með þessum poppurum líka. Það er mjög skemmtilegt. Ég tók að mér söngkeppni Fjölbrautaskóla Suðurnesja, hef verið með hana undanfarin þrjú ár og finnst rosa gaman að stýra hljómsveitinni og vinna með krökkunum. Mitt „forte“ liggur svolítið í fjölbreytninni. Ég gæti ekki verið bara hérna við orgelið að spila sálma. Ég þarf að fá að spila John Lorde stundum. Ég þarf að fá að spila Child in Time. Ég geri það nú stundum þegar ekki margir heyra til. Mér finnst gaman að vera úti um allt, segir Arnór B. Vilbergsson, handhafi Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar 2016.