Mánudagur 2. maí 2016 kl. 07:00

Sjónvarp: Már Gunnarsson með nýtt frumsamið lag

–  Hljómlist án landamæra heppnaðist vel

Það var húsfylli og frábær stemning í Stapanum á sumardaginn fyrsta, þar sem fóru fram tónleikarnir Hljómlist án landamæra. Þar leiddu saman hesta sína fatlaðir og ófatlaðir tónlistarmenn af Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og Akranesi.

Kynnar voru þeir Steindi og Auddi Blö en óhætt er að segja að landslið tónlistarfólks hafi stigið á svið. Meðal þeirra sem komu fram voru okkar eigið fólk: Valdimar, Siggi Guðmunds ásamt bróður sínum og föður, Maggi Kjartans, ásamt fjöldanum öllum af færum og frægum listamönnum.

Tónleikarnir voru liður í listahátíðinni „List án landamæra“ þar sem fjölbreytileikanum er fagnað og öllum sem áhuga hafa gefst tækifæri á að koma listsköpun sinni á framfæri.

Meðfylgjandi upptaka er af tónlistaratriði þar sem Már Gunnarsson úr Reykjanesbæ flutti frumsamlið lag á tónleikunum en Már hefur verið að gera eftirtektarverða hluti við píanóið á síðustu árum.

Í Sjónvarpi Víkurfrétta sl. fimmtudagskvöld voru boðuð fleiri tónlistaratriði frá Hljómlist án landamæra. Vegna réttindamála verður ekki hægt að birta fleiri atriði frá kvöldinu en þetta.