Mánudagur 2. maí 2016 kl. 08:00

Sjónvarp: Ljóshús á gamla vitann á Garðskaga

– Sjáið innslag Sjónvarps Víkurfrétta um nýja ljóshúsið á gamla vitann á Garðskaga

Eins og fjallað er um hér á vf.is fyrr í morgun þá hefur ásýnd gamla vitans á Garðskaga tekið breytingum. Vitinn er kominn með hatt. Ljóshús er komið á vitann að nýju næstum 70 árum eftir að það var tekið niður og flutt vestur í Breiðafjörð. Það er félagsskapur um íslenska strandmenningu sem stóð fyrir því að ljóshúsið var smíðað. Verkefnið hefur haft nokkurn aðdraganda en undanfarið eitt og hálft ár hefur verið unnið af krafti að verkefninu. Það var svo á föstudag í þarsíðustu viku sem þyrla frá Landhelgisgæslunni kom í Garðinn og lyfti ljóshúsinu á sinn stað.

Vitafélagið er áhugafélag og grasrótarfélag um íslenska strandmenningu. Þegar félagið var stofnað árið 2003 vissi enginn hvað orðið strandmenning þýddi. Flestir tengdu það við suðrænar sólarstrendur og því var ákveðið að nafn félagsins yrði Vitafélagið og vitinn væri menningarvitinn og vörður strandmenningarinnar í heild.