Þriðjudagur 31. maí 2016 kl. 06:00

Sjónvarp: Hjólakraftur í Sandgerði og Garði

„Þetta gengur út á það að fá krakka út að leika. Að reyna að nýta þessa orku sem fólk á til að gera eitthvað skemmtilegt og uppbyggilegt,“ segir Þorvaldur Daníelsson, frumkvöðull hjá Hjólakrafti. Hann stofnaði samtökin Hjólakraft fyrir nokkrum árum og býður nú upp á reiðhjólaæfingar fyrir ungmenni á nokkrum stöðum á landinu. Sjónvarp Víkurfrétta hitti hressan hóp hjólreiðagarpa úr Sandgerði og Garði á dögunum en sameiginlegar æfingar fyrir elstu nemendur skóla bæjarfélaganna hófust fyrr í vor.

Þorvaldur keyrir á milli bæjarfélaga á æfingar og hefur með sér nokkur „racer“ hjól sem krakkarnir hjóla á. Starfið hjá Hjólakrafti hefur vaxið á undanförnum mánuðum og er núna boðið upp á æfingar á höfuðborgarsvæðinu, í Grindavík, Selfossi og á Egilsstöðum.